14.6.2007 20:42

Fimmtudagur, 14. 06. 07.

Var í hádeginu á fundi í UNESCO og hitti þar einn af forstöðumönnum heimsminjaskrifstofunnar og ræddi við hann um Þingvelli og tillögur Íslendinga um fleiri staði á skrána, þar á meðal Surtsey. Tillaga um hana er komin til efnislegrar athugunar hjá sérfræðingum skrifstofunnar.

Við fórum í kvöldheimsókn í safnið Les Arts Décoratifs - hönnunarsafnið, sem var opnað að nýju í september 2006 eftir 10 ára lokun - það er víðar en á Íslandi, sem menn gefa sér góðan tíma til að enfurnýja söfn og sýningar. Frökkum tókst vel að endurgera þetta mikla safn sitt, sem er í einni álmu Louvre-hallarinnar við rue de Rivoli. Áhugamenn geta kynnt sér safnið á vefsíðunni www.lesartsdecoratifs.fr

Þegar litið er til baka, verða ræður Marðar Árnasonar og fleiri um Þjóðminjasafnið og endurnýjun þess  taldar til skrýtilegri þátta íslenskra safnamála. 

Frakkar ganga til síðari hluta þingkosninga nk. sunnudag. Ekkert bendir til þess í París, að minnsta kosti ekki í þeim hverfum, sem ég hef heimsótt, að háð sé hörð kosningabarátta. Nicolas Sarkozy og hans menn munu vinna stórsigur og hafa raunar gert það í fyrri umferðinni sl. sunnudag. Sósíalistar eru í sárum.