12.6.2007 19:37

Þriðjudagur, 12. 06. 07.

Klukkan 10.00 hófst Schengen-ráðherrafundur hér í Lúxemborg og stjórnaði Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, honum af mikilli festu. Á fundinum hitti ég meðal annarra Michele Alliot-Marie, nýjan innanríkisráðherra Frakka, en á sínum tíma, þegar hún var varnarmálaráðherra, heimsótti ég hana í ráðuneyti hennar í París - hvergi hefur verið tekið á móti mér á virðulegri hátt en þar.

Schengen-fundir eru sóttir af dómsmálaráðherrum, innanríkisráðherrum og innflytjetndaráðherrum. Ræðst það af stjórnarháttum einstakra landa, hvernig þessum verkefnum er skipt á milli manna.

Í Frakklandi var til dæmis stofnað sérstakt innflytjendaráðuneyti, eftir að Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti. Brice Hortefeux, náinn samstarfsmaður forsetans, gegnir því embætti, en við Tómas Ingi Olrich sendiherra hittum Hortefeux í sömu ferð og við sátum fund með Ailliot-Marie. Í þingkosningunum um síðustu helgi styrktist pólitísk staða þessara frönsku stjórnmálamanna mjög - má það meðal annars rekja til þess, hvernig þau hafa tekið á innanríkis- og innflytjendamálum.

Eftir Schengen-fundinn hitti ég fulltrúa úr norsku sendinefndinni og ræddum við þyrlumál.

Í hádegi heimsótti ég EFTA-dómstólinn og tók Carl Baudenbacher, forseti dómstólsins, á móti okkur með þeim Þorgeiri Örlygssyni og Henrik Bull dómurum auk Skúla Magnússonar, framkvæmdastjóra dómstólsins.

Síðdegis heimsóttum við Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Kristrún Kristinsdóttir, fullrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í Brussel, síðan höfuðstöðvar Landsbanka Íslands, þar sem Gunnar Thoroddsen, forstjóri bankans, kynnti okkur starfsemina.