9.6.2007 21:56

Laugardagur 09. 06. 07.

Fórum austur að Breiðabólstað í Fljótshlíð í dag til að fagna 200 ára afmæli sr. Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns með því að horfa á leikþátt eftir Guðrúnu Ásmundsdóttur í kirkjunni og þiggja kirkjukaffi.

Á mbl.is stendur:

„Háskólar á Íslandi sitja ekki við sama borð gagnvart stjórnvöldum, sagði Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, við brautskráningu kandidata í dag. Þorsteinn sagði einkaháskólana njóta mun meira fjárhagslegs frelsis en opinberir háskólar. Þessi mismunun sé afar sérstæð og þekkist slíkt óréttlæti vart í nálægum löndum.“

Þessi mismunun er ekkert sérstæð. Ríkisháskólar geta hvergi keppt við einkarekna háskóla. Hvarvetna þar sem menn horfast í augu við þessa samkeppni af raunsæi átta þeir sig á því, að skólagjöld eru nauðsynleg - eða hækkun skatta. Með þessa staðreynd í huga voru tekin upp skólagjöld í Bretlandi og þau eru að ryðja sér rúms í æ fleiri Evrópulöndum. Ríkisreknir bankar geta ekki keppt við einkarekna - hið sama á við um háskóla.