8.6.2007 22:02

Föstudagur, 08. 06. 07.

Sumarhefti Þjóðmála undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar kom út í dag með fjölbreyttu efni. Skora ég á lesendur síðu minnar að kynna sér þetta nýja hefti og raunar að gerast áskrifendur að tímaritinu en það má gera hér á netinu í hinni ágætu bóksölu á andriki.is.

Jakob sýnir mér þann vináttuvott að taka saman grein um embættisveitingar mínar sem menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálráðherra vegna gagnrýni í aðdraganda kosninganna. Jakob birtir nöfn allra, sem ég hef skipað eða ráðið, frá því að ég varð ráðherra 1995. Hljóta menn að sannfærast um, að María Kristjánsdóttir getur ekki haft rétt fyrir sér, þegar hún segir á vefsíðu sinni, að ég skipi í „embætti óhæfa menn fremur en hæfa.“ Vonandi undirbýr María leikdóma sína fyrir Morgunblaðið betur en þennan sleggjudóm.

Í vorhefti Skírnis skrifar Alda Björk Valdimarsdóttir greinina: Vera Hertzsch. Snýst greinin um örlög Veru, frásögn Halldórs Laxness af handtöku hennar og stöðu atburðarins í höfundarverki Laxness. Hún vitnar í pistil eftir mig frá því í mars 2003 og veltir fyrir sér, hvort í orðum mínum þar felist hugsanlega, að handtöku Veru megi rekja til heimsóknar Halldórs til hennar, eða Halldór beri ábyrgð á henni. Ég hef hvergi ýjað einu orði að því heldur undrast þá tilviljun, að lögreglan skyldi koma til Veru, þegar Halldór var á heimili hennar.

Grein Öldu Bjarkar er í ætt við óleysta leynilögreglugátu, mörgum spurningum er enn ósvarað, eins og þeirri, hvort Halldór hafi hreinlega skáldað það, að hann hafi verið viðstaddur handtökuna - en Hannes Hólmsteinn Gissurarson vitnar í Þórberg Þórðarson, sem taldi þetta uppspuna hjá Laxness.