7.6.2007 19:46

Fimmtudagur, 07. 06. 07.

Klukkan 16. 30 var ég í flugskýli Landhelgisgæslu Íslands og fagnaði með starfsmönnum hennar og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins komu börgunarþyrlunnar TF-Gná, sem er fullkomin Super-Púma vél, sem enn eflir leitar- og björgunarmátt gæslunnar.

Karl Rosengren og tíu aðrir Svíar stefndu sænska ríkinu fyrir dóm, þegar spænskt vín, sem þeir höfðu pantað á danskri vefsíðu, var gert upptækt við sænsku landamærin. Málið fór fyrir hæstarétt Svía, sem leitað forúrskurðar Evrópusambandsdómstólsins. ESB-dómararnir komust að þeirri niðurstöðu, að ekki mætti banna Svíunum að flytja áfengi til Svíþjóðar, bannið bryti gegn meginreglu ESB um frjáls viðskipti. Samkvæmt sænskum lögum má aðeins kaupa áfengi. sem er sterkara en 3,5%, í Systembolaget, sænska „ríkinu“.

Vörn sænska ríkisins byggðist á því, að í innflutningtakmörkunum fælist viðleitni til að vernda heilsu landsmanna. Dómstóllinn taldi, að viðskiptahindrunin væri „óheppileg til að ná því markmiði að takmarka áfengisneyslu almennt og ekki hæfileg til að ná því markmiði að vernda ungt fólk frá skaðlegum áhrifum áfengis.“

Hæstiréttur Svíþjóðar hefur ekki enn komist að niðurstöðu sinni en Maria Larsson, heilbrigðisráðherra Svía, segir, að áfengiseinkasalan hverfi ekki úr sögunni. Sænsk stjórnvöld muni áfram vinna að því að draga úr áfengisneyslu.