29.5.2007 19:24

Þriðjudagur, 29. 05. 07.

Enn á ný ræða menn um ofbeldi í miðborg Reykjavíkur. Í Stöð 2 kom fram í kvöld, að um er ræða stuttan tíma um þrjár klukkustundir aðfaranótt laugardags og aðfaranótt sunnudags, þegar ofbeldishneigð virðist helst leggjast á almenna borgara, einkum ungt fólk.

Hvernig á að uppræta þessa ónáttúru? Er hert löggæsla og fjölgun myndavéla besta leiðin? Löggæsla hefur verið aukin og yfirstjórn lögreglu vinnur náið með borgaryfirvöldum í því skyni að sporna við ósómanum.

Þeir, sem gera að sárum fórnarlamba ofbeldisins og starfað hafa á sjúkarhúsum erlendis, segja ástandið hér einstakt að því leyti, að ekki sé um átök glæpahópa að ræða, eins og venjulegt sé í útlöndum, heldur ofsafengin samskipti almennra borgara.

Tengist þessi framganga sóðaskapnum í borginni? Tillitsleysið við umhverfið er oft þannig að með ólíkindum er, svo að ekki sé talað um skemmdarfýsnina og virðingarleysið fyrir eignum annarra. Á daglegum gönguferðum við Perluna undrast ég, hve mikið menn leggja á sig til að brjóta þykkt öryggisgler á ljóskösturum við hitaveitutankana.  Hve oft undirgöngin á Bústaðaveginum yfir í Suðurhlíðar eru máluð vegna veggjakrots, veit ég ekki, en krotararnir láta sér ekki segjast og halda áfram skemmdarverkunum.

Í morgun fór ég í sund í fyrsta sinn eftir sjö vikna hlé og var gott að taka sundtökin að nýju og hitta félagana.