24.5.2007 17:52

Fimmtudagur, 24. 05. 07.

Klukkan 10.30 hófst ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar að Bessastöðum og um tólf leytið komu makar ráðherra og bauð forseti Íslands til hádegisverðar.

Klukkan 14.00 hófst ríkisráðsfundur annarrar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og var ritað undir skipunarbréf ráðherra, sem rituðu undir eiðstaf sinn.

Hélt ég frá Bessastöðum tæplega 15.00.

Í dag felldi hæstiréttur dóm í máli, sem ljósmyndarar höfðuðu upphaflega gegn ríkinu til að fá það viðurkennt, að ljósmyndurum með iðnréttindi væri einum heimilt að taka ljósmyndir í íslensk vegabréf. Héraðsdómari hafði fallist á sjónarmið ljósmyndara, en hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfum ljósmyndara og féllst á þau meginrök dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að útgáfa vegabréfa sé hluti af stjórnsýslu, myndatakan sé órjúfanlegur þáttur í útgáfuferlinu og að ekki séu gerðar faglegar kröfur þannig að jafnað verði við myndatöku í atvinnuskyni í skilningi iðnaðarlaga.