22.5.2007 23:41

Þriðjudagur, 22. 05. 07.

Klukkan 08.45 hitti ég Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins, í Ráðherrabústaðnum og var ég fyrsti viðmælandi hans þar, en fram til klukkan 18.00 hitti hann 24 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ræddi við þá um myndun ríkisstjórnar með Samfylkingunni.

Klukkan 19.00 var haldinn fundur í flokksráði Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, þar sem Geir fór yfir sáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hann skýrði einnig frá því, hvernig ráðuneytum yrði skipt milli flokkanna. Var máli hans mjög vel tekið og eindregnum stuðningi lýst við tillögu hans um þetta stjórnarsamstarf.

Strax að loknum flokksráðsfundinum kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman til fundar í Valhöll. Þar lagði Geir fram tillögu sína um ráðherra flokksins og þar á meðal, að ég yrði áfram dóms- og kirkjumálaráðherra. Féllst þingflokkurinn umræðulaust á tillöguna eins og verið hefur síðan ég settist í hann.

Geir hefur haldið vel á stjórnarmyndunarviðræðunum og sýndu báðir fundirnir í dag, að hann nýtur óskoraðs trausts bæði flokksráðs og þingflokks.