1.5.2007 21:16

Þriðjudagur 01. 05. 07.

Klukkan 11.00 var ég í lögreglumessu í Digraneskirkju, þar sem Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, prédikaði og lögreglukórinn söng.

Umræður um skattamál í Kastljósi í kvöld sýndu, að stefna stjórnarandstöðunnar snýst um skattahækkanir, þótt hún þori ekki að tala um það nema á óljósan hátt. Umræðurnar voru líflegar undir stjórn Ingólfs Bjarna Sígfússonar, en hann fór illa að ráði sínu, þegar hann beindi talnarunu í anda stjórnarandstöðunnar gegn Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, en sagði tímann löngu liðinn, þegar Árni ætlaði að svara honum. Hlutdrægni af þessu tagi er enn undarlegri en ella, þegar hún er höfð í frammi, eftir að útsendingartíma er lokið. Slökkt er á svarinu vegna tímaskorts!

Í gær undraðist ég neikvæð ummæli Halldórs Ásgrímssonar um EES-samninginn og í dag fékk ég áróðursblað Samfylkingarinnar inn um lúguna, þar sem Aðalsteinn Leifsson, fyrrverandi starfsmaður Evrópusambandsins og EFTA, lætur eins og Íslendingar séu í einskonar samningsþröng gagnvart Evrópusambandinu.

Frá sumri 2004 þar til í mars á þessu ári stýrði ég Evrópunefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna og héldum við meira en 40 fundi um aðild Íslands að EES, stöðu EES-samningsins og önnur tengsl okkar við ESB. Þessi lýsing Halldórs og Aðalsteins stangast alfarið á við þá mynd, sem við nefndarmenn drögum upp í ítarlegri skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

Af ummælum þeirra Halldórs og Aðalsteins dreg ég helst  þá ályktun, að hvorugur þessara miklu áhugamanna um Evrópumál hafi lesið skýrslu Evrópunefndar. Hafi þeir gert það, má spyrja, hvort þjóni nokkrum tilgangi að leggja á sig jafnmikla vinnu og við nefndarmenn inntum af hendi - aðrir viti bara betur, hvað sem öllum hlutlægum upplýsingum líði. Með vísan til þeirra upplýsinga gef ég ekki mikið fyrir hræðsluáróður þeirra Halldórs og Aðalsteins um stöðu okkar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu.