5.4.2007 10:17

Fimmtudagur, 05. 04. 06.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem birti er í dag og gerð var fyrir Morgunblaðið og RUV, er Sjálfstæðisflokkurinn með 40,6% atkvæða, en mældist með 36,7% fylgi í síðustu könnun fyrir viku. Vinstri grænir mælast með 21,1% og minnkar fylgi þeirra um tæp þrjú prósentustig frá síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 19,5% og minnkar fylgi hennar lítilsháttar frá síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn mælist með 8,1%. Frjálslyndi flokkurinn er með 5,4%. Íslandshreyfingin mælist núna með 4,5% fylgi og minnkar fylgið úr 5,2% frá því fyrir viku.

Hvað hefur gerst síðan síðasta könnun var gerð? Jú, þar ber hæst atkvæðagreiðlsuna í Hafnarfirði. Fagnandi viðbrögð forystumanna vinstri/grænna hafa ekki orðið til að auka þeim fylgi. Sífellt fleiri eru að átta sig á því, að neikvæð stöðvunarstefna flokksins á flestum sviðum og krafa um þungar viðjar ríkisvaldsins er síst til þess fallin að stuðla að framförum.

Frá því að síðasta könnun var gerð hafa einnig orðið nokkrar umræður um ræðu mína um öryggis- og varnarmál fyrir réttri viku. Þær hafa ekki spillt neinu fyrir Sjálfstæðisflokkinn nema síður sé.

Skrýtnasta pólitíska frétt dagsins birtist á forsíðu Fréttablaðsins:

„Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, óskaði eftir að Alcan í Straumsvík styrkti flokkinn um þrjú hundruð þúsund krónur fyrir komandi alþingiskosningar.

Drífa Snædal, framkvæmdastýra VG, segir ekki óeðlilegt að flokkurinn óski eftir fjárstuðningi frá álfyrirtækinu. „Við sendum bréf á hundrað stærstu fyrirtækin í landinu og báðum um fjárstyrk. Annars er gengið mismunandi hart eftir þessu, við höfum til dæmis ekki ítrekað beiðnina við Alcan."

Fulltrúar VG börðust síðastliðna helgi gegn stækkunaráformum Alcan í Hafnarfirði.

Drífa leggur áherslu á að þótt flokkurinn þiggi peninga frá fyrirtækjum hafi það engin áhrif á stefnu hans. „Við erum í þeirri aðstöðu að vera upp á náð og miskunn fyrirtækja komin, og úrtakið okkar var hundrað stærstu fyrirtækin á Íslandi. Alcan er eitt þeirra."“