4.4.2007 8:59

Miðvikudagur, 04. 04. 07.

Framsóknarflokkurinn tapar tveimur þriðju af fylgi í Norðausturkjördæmi, en Sjálfstæðisflokkur bætir við sig um níu prósenta fylgi. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2 í Norðausturkjördæmi. Vinstri grænir auka fylgi sitt um átta prósent og Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentum. Íslandshreyfingin mælist með tæplega sex prósenta fylgi en frjálslyndir aðeins með um tvö prósent.

Ég samfagna með flokkssystkinum mínum í kjördæminu, þetta er lofandi sveifla í fylgi til þeirra og megi hún haldast til kosninga. Vinstri/græn eru farin að dala, en framsókn virðist glíma við tilvustarvanda.

Samfylkingin í Reykjavík gaf út blaðið Reykjavík í dag og þar birtist langt viðtal við tvíeykið Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össur Skarphéðinsson. Athygli vekur, að meginhluti viðtalsins snýst um, hvort þau ISG og Össur geti unnið eða jafnvel talað saman. Viðtalið endurspeglar þannig vel hinar miklu áhyggjur samfylkingarfólksins í Reykjavík - flokkur þeirra sé í raun klofinn ofan í rót. Hver gengur vígreifur til kosninga í vafa um, hvort foringjar í flokknum geti talað saman?

Í Samfylkingarblaðinu fá margir að láta ljós sitt skína, þó ekki Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, annar á listanum í Reykjavík suður. Honum sést hvergi bregða fyrir í blaðinu. Þar má hins vegar sjá mynd af Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðingi, en eftir henni er meðal annars haft: „Og því miður höfum við í meira en tólf ár búið við stjórnarfar sem skipar menntun ekki í öndvegi...“

Vilji Kristrún láta taka mark á sér í stjórnmálbaráttunni, ætti hún að vanda yfirlýsingar sínar betur. Árangur í menntamálum undanfarin 12 ár ber þess einmitt merki, að málaflokkurinn hefur verið settur í öndvegi - árangurinn er meiri og betri en nokkurn gat grunað - hvar sem borið er niður, hefur miklu verið áorkað.

Hér ætla ég, að ítreka þá skoðun mína, að flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna bar minni árangur en ég vænti, vegna þess að R-listinn stjórnaðí í Reykjavík og stóð gegn einkaframtaki í skólastarfi. Ef hann hefði tekið Margréti Pálu á sama veg og Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, og hennar sjálfstæðisfólk gerði, væri árangurinn enn meiri á grunnskólastiginu. Þá væru kjör kennara og þar með einkum kvenna betri en þau eru núna.

Samfylkingarmaðurinn Björgvin G. Sigurðsson er því miður farinn að senda frá sér fréttatilkynningar um fangelsismál.



 

Björgvin G. Sigurðsson, efsti maður á lista Samfylkingarinnar, í suðurkjördæmi sendi frá sér fréttatilkynningu í gær um, að nú yrði að kalla allsherjarnefnd alþingis saman og kalla mig og marga aðra fyrir hana til að ræða fangelsismál. „Við erum á steinaldarstigi og rekum úrelta refsipólitík í stað nútímalegrar betrunar og mannræktarstefnu,“ segir frambjóðandi af alkunnri hógværð. Björgvin lætur einnig eins og hann beri hag fangavarða sérstaklega fyrir brjósti.

Þessi lýsing á íslenskum fangelsum og þeirri stefnu, sem þar er fylgt, er svo fráleit og út í hött, að ómögulegt er að líta boðskapinn sem alvöru. Upphrópanir af þessu tagi samrýmast hins vegar stjórnmála- og stóryrðastíl Björgvins. Hann hefur skrifað óteljandi greinar í þessum dúr um menntamál og svert þann málaflokk á þann veg, að á sér fá fordæmi. Ég hvet alla, sem vilja veg fanga og fangelsa mikinn, til að skora á Björgvin, að hann leyfi þeim að vera í friði fyrir neikvæðum afskiptum sínum.