1.4.2007 18:07

Sunnudagur, 01. 04. 07.

Þess var minnst klukkan 11.00 með hátíðarmessu, þar sem herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði, að 50 ár voru liðin frá vígslu Neskirkju.

Nýlega las ég í The Spectator dagbókarbrot eftir Andrew Roberts, sagnfræðing og blaðamann, um ferð hans til Bandaríkjanna, þar sem hann var að kynna bók sína History of the English-Speaking Peoples Since 1990, sem er framhald á fjögurra binda verki Winstons Churchills um sama efni. Dagbókin sýndi, að vel hafði verið tekið á móti Roberts og hitti hann margt stórmenni. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, bauð honum meðal annars til hádegisverðar og málstofu í Hvíta húsinu 27. febrúar.

Ég hafði áhuga á forvitnast meira um þetta og sá þá á netinu, að þessi hádegis-málstofa hafði leitt til orðaskipta í The Weekly Standard á milli tveggja gesta, sem þangað voru boðnir, en þar koma við sögu Irwin M. Stelzer, sem skrifar reglulega í blaðið, starfar við Hudson-stofnunina og skrifar reglulega í Sunday Times í London, og Michael Novak, sem fjallar um trúmál, heimspeki og stjórnmál við American Enterprise Institute.

Ég ætla ekki að endursegja þessi orðaskipti en bendi á, hvar unnt er að nálgast þau. Hér er grein Stelzers og hér er grein Novaks (þess má geta, að fyrir mörgum árum kom Novak hingað til lands og minnist ég þess að hafa hitt hann í boði bandaríska sendiherrans á þeim tíma.)

Þá rakst ég á þessa frásögn af Latabæ á vefsíðu The Economist.