31.3.2007 23:05

Laugardagur, 31. 03. 07.

Hafnfirðingar höfnuðu deiliskipulagi, sem heimilaði stækkun álversins í Straumsvík í íbúakosningu í dag. Alls greiddu 12.747 atkvæði í kosningunni eða tæplega 77% á kjörskrá. 88 atkvæði  skildu á milli já og nei. 6382, eða 50,06% höfnuðu deiliskipulaginu, en 6294 eða 49,37% sögðu já. 71 seðill var auður eða ógildur.

Niðurstaða, sem fæst með svo litlum mun, er alltaf erfið úrlausnar, þótt svari kjósenda verði að sjálfsögðu ekki haggað. Vandinn við að hverfa frá fulltrúalýðræðinu og varpa ábyrgðinni á hinn almenna borgara er sá, að það eru aðrir en kjósendur, sem þurfa að vinna úr málinu og leiða það endanlega til lykta.

Hvort sem menn eru með eða á móti stækkun álversins, skapar þessi niðurstaða erfitt úrlausnarefni fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Hún þarf væntanlega að semja nýja tillögu að deiliskipulagi. Verður hún einnig borin undir atkvæði? Lúðvík Geirsson bæjarstjóra vildi ekki bera ábyrgð á ákvörðun um deiliskipulagið sem kjörinn fulltrúi en glímir nú við þann vanda að sætta þessar jöfnu, ólíku fylkingar í klofnu bæjarfélagi um málefni, sem varðar mjög framtíð þess.

Engu er líkara, ef marka má það, sem haft er eftir Lúðvík Geirssyni á netinu í kvöld, en hann telji sig hafa einhverja dúsu fyrir Alcan. Rannveig Rist segir kosninguna hins vegar bindandi, ef marka megi fyrri yfirlýsingar bæjarstjórnar, og Alcan muni haga sér í samræmi við það. Þeir, sem hvöttu fólk til að segja nei, eru að sjálfsögðu ekki spurðir um framtíðina.

Í raun er undarlegt, að bæjarstjóri Hafnarfjarðar skuli ekki hafa tekið opinbera og skýra afstöðu í þessu máli og kynnt hana rækilega fyrir umbjóðendum sínum. Lúðvík Geirsson hefur ekki sýnt, að hann þori að hafa skoðun og standa við hana. Að þessu leyti er hann dæmigerður forystumaður í Samfylkingunni - flokki án skoðunar en með ótakmarkaða þrá eftir völdum. Á þeim bæ eru engir leiðtogar.