21.3.2007 19:16

Miðvikudagur, 21. 03. 07.

Fór á fróðlegan kynningarfund í Alþjóðahúsi síðdegis, en þar hafa umsvif aukist jafnt og þétt undanfarin ár eins og hjá öllum, sem sinna málefnum útlendinga í landinu. Alþjóðahúsið leggur mikið af mörkum til að auðvelda útlendingum að laga sig að íslensku þjóðfélagi. Styrkur starfseminnar felst í því, hve vel hefur tekist að sameina þar krafta margra. Innan hins opinbera kerfis er ekki unnt að bregðast við nýjum verkefnum eins og gera má með því að reka starfsemi á borð við þessa undir merkjum einkaframtaksins en með þjónustusamninga við þá opinberu eða einkaaðila, sem sjá sér hag af viðskiptunum.

Að loknum fundinum í Alþjóðahúsi fór ég til ríkislögreglustjóra og ritaði undir árangursstjórnunarsamning við embættið og kynnti mér starfsemi þess, en það hefur tekið miklum breytingum undanfarin misseri með eflingu sérsveitar, stofnun greiningardeildar og breyttu skipulagi við saksókn efnahagsbrota.

Í kvöldfréttum sjónvarps var rætt um þá hugmynd, að Efri-Brú yrði notuð til þjónustu fyrir fangelsismálastofnun. Þar kom ekki fram, að hugmyndin var ekki bundin við, að stofnunin tæki húsnæðið sjálf til rekstrar heldur yrði hann í höndum einkaaðila, sem mundi veita fangelsismálastofnun og öðrum þjónustu á grundvelli samnings. Þá hefur einnig verið ljóst í öllum þessum vangaveltum, að félagsmálaráðuneytið hefði húsakost á Efri Brú á sínu forræði og tæki ákvörðun um ráðstöfun þess.

Sveigjanleiki innan fangelsiskerfisins hefur þrengst vegna lengri dóma og hann mætti auka með því að koma á fót lággæslufangelsi, þar mætti vista þá, sem kallaðir eru inn til að afplána sektargreiðslur, svo að dæmi sé tekið.