19.3.2007 20:10

Mánudagur, 19. 03. 07.

Axell Hall og Ragnar Árnason rita grein í Morgunblaðið í dag ræða um það, sem sagt hefur verið um ójöfnuð hér á landi að undanförnu og hafna þeir því alfarið, að hann sé meiri en annars staðar eða hafi vaxið hin síðustu ár.

Þegar grein þeirra félaga er lesin, vakna enn á ný spurningar um, hvað vakir fyrir þeim fræðimönnum, sem hafa haldið þeim skoðunum stíft að okkur, að íslenska þjóðfélagið sé að gjörbreytast, fjarlægjast Norðurlönd og nálgast Bandaríkin. Hagtölurnar, sem þeir Axel og Ragnar, leggja til grundvallar, sýna allt annað.

Í þessu sambandi er einnig ástæða til að nefna grein í nýjasta hefti Þjóðmála, sem kom út nú um helgina, eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Hún heitir Sjónhverfingar prófessoranna og snýst um talnabrellur í málflutningi prófessoranna Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar. Segir Hannes Hólmsteinn, að þeir þráist við að viðurkenna þá staðreynd að hagur allra Íslendinga hafi batnað mjög á undanförnum árum.

Enn á ný hvet ég lesendur síðu minnar til að gerast áskrifendur að Þjóðmálum en það er auðvelt í gegnum bóksöluna á www.andriki.is

Í þetta nýjasta hefti Þjóðmála ritar Aðalsteinn Eiríksson, fyrrverandi skólameistari, sem undanfarin ár hefur unnið þrekvirki innan menntamálaráðuneytisins við gerð reiknilíkans fyrir framhaldsskólana, um samkeppni þeirra skóla. Grein Aðalsteins er að nokkur leyti svar við grein Atla Harðarsonar, aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, sem birtist á sínum tíma í Þjóðmálum. Af grein Aðalsteins má ráða, hve mikið hefur áunnist á þessu sviði, ekki síst fyrir þrotlaust starf hans sjálfs.