17.3.2007 22:55

Laugardagur, 17. 03. 07.

Ingvi Hrafn Óskarsson situr fyrir mig á þingi þessa síðustu daga þess, svo að ég hef ekki tekið þátt í hinum miklu atkvæðagreiðslum lokadagana.

Í dag var sérstaklega tekið fram í fréttum, að frumvarp mitt um breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga hefði orðið að lögum með þeirri breytingu, að alvarlegustu brot gegn börnum fyrnast ekki. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, beitti sér fyrir þverpólitískri sátt í nefndinni um þessa breytingu. Pólitískt mat leiddi til hennar, enda tryggði hún og brottfall breytingartillögu um svonefnt sænskt vændisákvæði, öruggan framgang þessa viðamikla máls á þinginu.

Frumvarpið var flutt í samræmi við fyrirheit mitt en Ragnheiður Bragadóttir prófessor samdi það og greinargerðina með því auk þess að vinna ötullega með allsherjarnefnd á tveimur þingum að afgreiðslu málsins.

Í pistli mínum í dag lagði ég út af fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur á forsíðu Morgunblaðsins í dag um einangrun Össurar Skarphéðinssonar innan Samfylkingarinnar. Í Morgunblaðinu 18. mars, sem kom í kvöld, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þetta rangt, Össur hafi ekki farið fram án stuðnings þingflokksins í auðlindamálinu.

Ég dreg þá ályktun af þessari athugasemd og bloggum spunamanna Samfylkingarinnar, að uppnámið innan flokksins vegna þessarar fréttaskýringar sé mikið og í raun séu málsvarar Ingibjargar Sólrúnar í flokknum með Morgunblaðið á heilanum. Þeir leita ekki aðeins hjá Össuri heldur einnig Morgunblaðinu skýringa á dvínandi gengi flokksins í könnunum. Greinilegt er, að tilraun þeirra til að styrkja stöðu flokksins með því að kvarta undan ómaklegu umtali um Ingibjörgu Sólrúnu hefur ekki skilað neinum árangri. Þá er róið á ný mið.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist 18. mars, er sagt, að samfylkingarmenn séu svo gamaldags og flokkspólitískir í allri afstöðu sinni, að þeir fæli frekar frá sér fylgi en auki það.