16.3.2007 17:53

Föstudagur, 16. 03. 07.

Fór síðdegis í Lögregluskóla ríkisins að Krókhálsi, þar sem nýtt húsnæði var formlega tekið í notkun. Auk þess ritaði ég undir árangursstjórnunarsamning um starfsemi skólans við Arnar Guðmundsson skólastjóra, staðfesti skipurit skólans og erindisbréf skólastjóra.

Þar sem varamaður situr fyrir mig á þingi er ég ekki þar við atkvæðagreiðslur eða afgreiðslu mála þessa síðustu daga þinghaldsins. Eins og áður hefur allsherjarnefnd undir formennsku Bjarna Benediktssonar unnið afar vel að öllum málum, sem ég hef lagt fram á þingi og fyrir hana hafa farið. Ræðst í dag og á morgun, hve þingið sjálft samþykkir mörg málanna, en ágreiningur er um örfá þeirra.

Dóms- og kirkjumálaráðneytið birti þessa athugasemd á vefsíðu sinni í dag:

„Dóms- og kirkjumálaráðuneytið sendi fréttastjóra Sjónvarps og umsjónarmanni Kastljóss hinn 16. mars eftirfarandi:

Dómsmálaráðuneytið vill að gefnu tilefni taka fram: Þegar rætt var í fréttatíma Sjónvarps og Kastljósi 13. mars um hina svokölluðu 24 ára reglu í útlendingalögum var hallað réttu máli. Látið var að því liggja að 24 ára reglan hefði fallið úr gildi strax um sumarið 2005, eftir að gerð var dómssátt um að fella úr gildi tvær ákvarðanir sem byggðu á henni. Hið rétta er að síðan hefur reglan verið framkvæmd á grundvelli ábendinga umboðsmanns Alþingis og hinna ströngu krafna sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið viðurkenndi, með endurupptöku málanna tveggja sem komu við sögu í fréttatímanum og Kastljósinu. Umboðsmaður Alþingis fann ekki að því að 24 ára reglunni væri beitt en taldi að ráðuneytið hefði jafnframt átt að líta til fleiri ákvæða í útlendingalögum við ákvörðun sína. Engar deilur hafa sprottið af beitingu 24 ára reglunnar síðastliðin tvö ár.

Dómsmálaráðuneytið telur athugasemd Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns í Kastljósi um „...að hafi málinu lokið með þessum hætti sé það viðurkenning ríkisvaldsins á því að þetta ákvæði standist hvorki stjórnarskrá né aðrar skuldbindingar ríkisins“, ekki eiga sér stoð í þeim málum, sem rætt var um í Kastljósi. Með vísan til góðra stjórnsýsluhátta ákvað ráðuneytið að eigin frumkvæði að taka fullt tillit til athugasemda umboðsmanns Alþingis og endurupptaka málin, ekkert hefur komið fram sem segir að 24 ára reglan standist ekki stjórnarskrá.“