27.2.2007 17:46

Þriðjudagur, 27. 02. 07.

Fór klukkan 20.00 í Hallgrímskirkju á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur. Voru þeir hluti af menningarhátíðinni Pourquoi pas? - franskt vor á Íslandi. Var aðeins flutt frönsk tónlist undir stjórn Daniels Kawka, en einleikarar voru Áshildur Haraldsdóttir á flautu, Rut, kona mín á fiðlu, Daði Kolbeinsson á óbó og Vincent Warnier á orgel.

Veturinn 2002 til 2003 ritaði ég reglulega greinar í Morgunblaðið, sem birtust á miðopnu þess á laugardögum og fjallaði ég þar um menn og málefni frá mínum sjónarhóli eins og dálkahöfundar gera, en á þessum tíma var ég utan ríkisstjórnar en sat bæði í borgarstjórn og á alþingi.

Laugardaginn 8. mars 2003 birtist grein undir ofangreindum formerkjum á miðopnu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni: Veiðileyfið frá Borgarnesi og snerist hún um svonefnda Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Greinin hófst hins vegar á þessum orðum:

„Davíð Oddsson forsætisráðherra lýsti „frétt“ Fréttablaðsins um að hann hefði rætt um fyrirtækið Nordica og Jón Gerald Sullenberger við Hrein Loftsson á fundi þeirra í London staðlausa. Færði hann fyrir því skýr rök. „Fréttin“ hefur næstum gleymst, eftir að Davíð sagði frá því, að Hreinn hefði nefnt hugmynd Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, um að gera mætti Davíð að vini Baugs með því að greiða honum 300 milljónir króna inn á leynireikning erlendis.

Morgunumferðin mánudaginn 3. mars, þegar morgunvakt RÚV hóf göngu sína með viðtali við Davíð, hægði á sér vegna dramatískra svara Davíðs við spurningum Óðins Jónssonar fréttamanns um „frétt“ Fréttablaðsins. Með öndina í hálsinum hlustuðu ökumenn og trúðu vart eigin eyrum. Í umræðuþáttum sjónvarpsstöðvanna um kvöldið ítrekaði Davíð frásögn sína. Hann dró alveg skýr mörk milli stjórnmála og viðskipta og talaði tæpitungulaust. Davíð flutti mál sitt beint til allra hlustenda og skýrði þeim frá einstæðri reynslu af samskiptum við mann, sem áður hafði verið náinn samstarfsmaður, en var gerður út af örkinni sem stjórnarformaður Baugs til að viðra ákveðna hugmynd með hagsmuni fyrirtækisins í huga. Síðan hafa pólitískar umræður fengið á sig nýjan blæ.“

Sama dag eða degi síðar hringdi sameiginlegur kunningi okkar Hreins Loftssonar í mig og sagði hann mjög reiðan vegna þessara orða minna. Af fréttum af yfirheyrslum í Baugsmálinu virðist Hreini ekki runnin reiðin enn, rétt tæpum fjórum árum síðar.

Í hljóðvarpi ríkisins í hádegi 26. febrúar 2007 sagði í frétt af Baugsmálinu fyrir hérðasdómi og yfirheyrslu yfir Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs:

„Sigurður Tómas Magnússon [settur saksóknari], spurði Hrein hvort beint eða óbeint hefði átt að bera fé á Davíð Oddsson. Hann [svo!] kom fram á Morgunvaktinni árið 2003, snemma í fyrsta þættinum að hugsanlega hefði átt að bera á Davíð Oddsson 300 milljónir króna. Hreinn sagði að slíkt hefði aldrei gerst. Hann hækkaði róminn þegar þarna var komið í réttarhaldinu og sagði þessa sögu fráleitan lygaáróður sem hann myndi aldrei komast yfir. Þá hefðu ýmsir pótintátar fjallað um málið í kjölfarið á því, þar á meðal dómsmálaráðherra á heimasíðu sinni og sagt að þarna hefði verið viðruð tiltekin hugmynd. Þetta þætti sér, sagði Hreinn, fáheyrt, ósvífið og ósatt.“

Í sjónvarpi ríkisins að kvöldi 26. febrúar 2007 sagði í frétt af Baugsmálinu fyrir hérðasdómi og yfirheyrslu yfir Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs:

„Hreinn Loftsson vitnaði í réttinum til bolludagsumræðanna en sagði að Davíð Oddsson hefði aldrei sagt það beint að borið hefði (svo!) verið á sig mútur, hins vegar hefðu aðrir pótintátar haldið því fram. Og hann kallaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, pótintáta í þessu sambandi og vitnaði í orð á heimasíðu Björns Bjarnasonar og sagði að þetta væri það sem hann hefði skrifað fáheyrt, ósvifið og ósatt, fráleitur lygaáróður og menn hefðu aldrei látið sér detta í hug að múta Davíð Oddssyni.“

Í Morgunblaðinu 27. febrúar segir í frétt af yfirheyrslum í Baugsmálinu í héraðsdómi daginn áður:

Settur saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, spurði þá hvort eitthvað væri hæft í því að Davíð hefði hótað Baugi lögreglurannsókn. Við því sagði Hreinn að engar beinar hótanir hefðu borist, en sér hefði orðið bilt við þann þunga sem var í ásökunum Davíðs.

Hreinn kvaðst hafa farið fram á úttekt á fyrirtækinu og sinnti m.a. Stefán Hilmarsson hjá KPMG verkefninu.

Því næst spurði saksóknari hvort Davíð hefði verið boðið fé, beint eða óbeint. Hreinn reiddist nokkuð við þessa spurningu og skýrði það síðar þannig að hann reiddist í hvert skipti sem hann heyrði þetta. Hann sagði það aldrei hafa gerst og síðar að það sem gefið hefði verið í skyn á vef dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, í kjölfarið hefði verið „fáheyrt, ósvífið og ósatt“.

Saksóknari spyr þá hvort það sé ekkert til í þessu og svarar Hreinn: „Nei. Þetta var einhver taktík, einhver smjörklípa sem er svo ósvífin að ég kemst ekki yfir það.“ “

Ég legg það í dóm lesenda síðu minnar, hvort viðbrögð Hreins í réttarsalnum séu í samræmi við það, sem fram kemur á vefsíðu minni um þetta mál en þar er greinin í Morgunblaðinu birt eins og aðrar vettvangs-greinar mínar frá þessum tíma.