17.2.2007 21:47

Laugardagur, 17. 02. 07.

Enginn leki úr lunganu, þannig að nú er öruggt, að aðgerðin í gær heppnaðist prýðilega.

Í Blaðinu í dag var sagt frá því, að ég hefði stillt hátalara svo hátt, að með Wagner-óperum hefði ég raskað ró hér á deildinni og verið látinn hafa heyrnartæki, með þeirri skýringu, að hljóðbylgjurnar hefðu áhrif á sum lungnatækin.

Í gær fékk ég þetta tölvubréf:

„Komdu sæll. Við fréttum að þú værir enn á sjúkrahúsi vegna samfallins lunga. Okkur langar til að vita hvernig líðanin er, hvernig meðferðinni er háttað, hversu lengi þú hefur dvalið á sjúkrahúsinu og hvenær þú búist við að komast heim.

Með kveðju,

Ingibjörg Sveinsdóttir,

blaðamaður, Blaðinu“

Mér þótti þetta dálítið skrýtin fyrirspum miðað við færslur mínar hér á síðuna frá því að lagðist hér inn. Vísaði ég blaðamanninum einfaldlega á vefsíðu mína.

Sagt er frá veikindum mínum í Blaðinu í dag á fréttasíðu en síðan bætt um betur með lygasögu um hávaða frá Wagner í einhverjum dálki. Líklega þykir þetta fyndið. Geti menn skemmt sér á kostnað veikinda minna og sjúkrahússlegu, er það í sjálfu sér gleðilegt. Hitt finnst mér verra að bera mig þeirri röngu sök, að ég hafi raskað ró sjúklinga hér á deildinni, þar mér og öllum öðrum líður vel eftir atvikum og er hjúkrað af alúð og kostgæfni. Ekkert hefur verið fjær mér en trufla sjúklinga með hávaða eða á annan hátt - og á Wagner hef ég hlustað í heyrnatækjum, síðan ég hóf að stytta mér stundir í sjúkralegunni á þennan hátt.