14.2.2007 21:10

Miðvikudagur, 14. 02. 07.

Gunnar vinur minn Eyjólfsson kemur til mín hingað í sjúkrastofuna og við gerum qi gong æfingar saman mér til andlegrar og líkamlegrar styrkingar. Þær er ekki síður unnt að gera rúmliggjandi en endranær. Ég sagði honum, að ég hefði fengið að láni hljómdiska með upptöku á Tristan og Isolde eftir Wagner frá 1952, þegar Wilhelm Furtwängler hefði stjórnað Philharmonia Orchestra í Covent Garden í London og Kirsten Flagstad sungið Isolde.

Þá rifjaði Gunnar upp, þegar hann fór með Guðrúnu Á. Símonar og Þorsteini Hannessyni í Albert Hall í London 1946 til 47, þegar Flagstad kom þar fyrst fram á einsöngstónleikum eftir stríð, en hún var látin gjalda þess af mörgum, að maður hennar hefði átt samskipti við nasista í Noregi. Gunnar sagði, að sumir hefðu klappað en aðrir púað, þegar hún gekk fram á sviðið í upphafi tónleikanna. Flagstad hefði hneigt sig og gefið meðleikaranum merki og hafið tónleikana á andlátssöng Isolde og þakið ætlað af húsinu vegna hrifningar áheyrenda strax eftir fyrsta lagið.

Síðan hafi hún efnt til annarra tónleika og þá hafi Guðrún Á. Símonar viljað sitja aftan við sviðið, svo að hún sæi hvernig Flagstad beitti rifjahylkinu við öndunina. Var Gunnar einnig á þeim tónleikum og þótti þeir ekki síður ógleymanlegir, það hefði verið magnað að fylgjast með líkamsburði stórsöngkonunnar.

Gunnar sagði, að eftir frumsýningu á Tristan og Isolde í Covent Garden hefðu Elísabet, líklega nýkrýnd drottning, og Filippus prins gengið niður á sviðið úr hinni konunglegu stúku og þakkað Flagstad, Furwängler og öðrum á sviðnu. Hefur áreiðanlega verið litið á það, sem sögulega sáttargjörð svo skömmu eftir stríð auk virðingar og þakklætis í garð listamannanna.

Í bæklingnum með þessari útgáfu á hljómdiskunum segir, að tæknilegu gæðin á þessum tíma séu að sjálfsögðu ekki hin sömu og nú á tímum en heildarmynd Furtwänglers sé svo mögnuð, að öll slík tæknileg smáatriði hverfi fljótt úr huga hlustandans. Og þá er þess getið að Elizabeth Schwarzkopf hjálpi vinkonu sinni Kirsten Flagstad við hið fræga, langa háa C. Þetta inngrip sé þó ekkert miðað við tæknibrellurnar, sem beitt sé við upptökur nú á tímum.

Í stuttu æviágripi á netinu um Kirsten Flagstad segir meðal annars:

„Of her many records, the complete Tristan und Isolde with Furtwängler undoubtedly offers the finest memorial to her interpretive art in its maturity. Her pre-war recordings, however, showcase her voice in its freshest brilliance and clarity.“

Þá er ekkert annað að gera en nýta tímann til að hlusta og kæfa hljóðið úr loftdælunni, sem hangir við mig, hvert sem ég fer og kemur í stað leiðslunnar í vegginn, sem tekur loftið úr mér á nóttunni.