6.2.2007 20:57

Þriðjudagur, 06. 02. 07.

Ég sé á mbl.is, að frétt um færslu mína hér á síðunni í gær um heilsufar mitt er mest lesna efnið á mbl.is. Ég sé einnig, að viðbrögð við fréttinni snúast um það, hvers vegna ég sagði frá því, að hægra lungað hefði fallið saman og síðan er tekið til við að gantast með það. Skopskynið gerir ekki grín að sér. Nákvæmni í frásögn á greinilega ekki alls staðar upp á pallborðið. Annar lesandi segir frásögnina benda til þess, að ég sé orðinn of gamall til að gegna starfi mínu. Læknar hér á LHS hafa sagt mér, að sé unnt að benda á einhvern einn hóp, sem fái þennan sjúkdóm um fram aðra, séu það hávaxnir, grannir ungir menn, sem gjarnan stundi íþróttir af miklu kappi og séu vel á sig komnir.

Í nýjasta hefti The Spectator er þess getið, að mikil samkeppni hafi verið milli borganna Manchester, Blackpool og Greenwich um að fá heimild til að reisa risa-spilavíti á Englandi. Manchester hlaut hnossið og þar verður reist 5000 fermetra spilahús með 1250 spilavélum. Borgaryfirvöld og íbúar í Blackpool og Greenwich taka því mjög illa að hafa orðið undir í þessari keppni, því að talið er, að mörg störf og mikil fjárhagsleg umsvif fylgi spilavítinu. Af frásögn The Spectator má ráða, að Manchester stefni að því að verða einskonar Las Vegas.

The Spectator amast ekki við þessu nýja risa-spilavíti. Blaðið segir, að í frjálsu þjóðfélagi hafi fólk frelsi til að stunda veðmál og spila, drekka áfengi, reykja sígarettur og gera margt annað, sem geti haft hroðalegar afleiðingar, ef ekki sé gætt hófs. Sumir líti á spilavíti sem ógæfustað aðrir telji það til þess fallið að lífga upp á tilveruna. Ríkisstjórnin eigi að setja starfsramma og reglur í samræmi við það, sem löggjafarvaldið samþykki, og síðan eigi ríkisvaldið að halda sér til hlés.

Hér á landi og víða annars staðar er hlutverk ríkisvaldsins að því er varðar happdrætti og spilastarfsemi með fé meira en í Bretlandi. Um það er til dæmis tekist nú fyrir EFTA-dómstólnum, hvort norska ríkið megi hafa einkaleyfi á slíkri starfsemi í Noregi.