3.2.2007 22:11

Laugardagur, 03. 02. 07.

Í Þjóðmál skrifaði ég pistil um Draumalandið og grunaði ekki, að bókin fengi íslensku bókmenntaverðlaunin sem fræðirit. Bókin hefur notið vinsælda, verið mikið rædd og væntanlega lesin, en að verðlauna hana sem fræðirit vekur spurningar um mælistikuna, sem notuð er á slík rit. Andri Snær talaði um verk sitt sem barátturit, sem hefði líklega ekki haft eins mikil áhrif og hann vænti miðað við fjölgun álvera.

Tvisvar hef ég notað heitið niðstöng nútímans um útvarp Sögu hér á síðunni í tilefni af því, hvernig stöðinni var beitt gegn Margréti Sverrisdóttur í varaformannskjöri frjálslyndra. Sverrir Hermannsson, stofnandi Frjálslynda flokksins og faðir Margrétar, ritar grein um ill örlög flokksins í Morgunblaðið í dag. Þar minnist hann á þessa sérkennilegu útvarpsstöð og kallar hana útvarp Lygasögu.

Sendingar í útvarpi Sögu fara fram hjá mér en mér er sagt, að Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi stöðvarinnar, flytji hverja skammarræðuna eftir aðra yfir mér á stöðinni og þeir Sigurður G. Tómasson og Guðmundur Ólafsson taki einnig syrpur í sama dúr. Allt er þetta líklega undir sömu formerkjum og annað á þessari makalausu stöð - óhróður af þessu tagi höfðar vafalaust til einhverra en Sverrir Hermannsson segir, að þeir, sem stöðin studdi í valdabaráttunni innan Frjálslynda flokksins hafi kostað starfsemi stöðvarinnar þá daga með auglýsingum. Þetta er sem sagt allt á sömu bókina lært.