1.2.2007 23:57

Fimmtudagur, 01. 02. 07.

Flaug heim frá Kaupmannahöfn kl. 20.10 og lenti hér 22.30 að íslenskum tíma.

Við blasti ný Gallup-könnun sem sýndi minnsta fylgi Samfylkingar á kjörtímabilinu 22%. Hvað skyldu þeir nú taka til bragðs? Svo virðist sem Dofri Hermannsson, starfsmaður Samfylkingarinnar, sé hinn eini, sem nú orðið tekur upp hanskann fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur flokksformann.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, brá þó veikburða skildi fyrir Ingibjörgu Sólrúnu í Blaðinu miðvikudaginn 31. janúar og sagði hana hafa flutt „yfirgripsmikla“ ræðu á flokksfundi á laugardag, en þá taldi Ingibjörg Sólrún flokk sinn of póltískan, en sagði síðar, að þetta hefði verið sagt í gríni.

Steinunn Valdís segir. að það sé ,,orðin brýn nauðsyn að skipta um ríkisstjórn, breyta áherslum og skapa sátt um nýtt jafnvægi á Íslandi". Við eigi að taka stjórn sem skilji ,,líðan og líf venjulegra Íslendinga".

Síðan tekur Steinunn til við að rekja: ,,Önnur merkistíðindi helgarinnar."

Þau eru af landsfundi Frjálslynda flokksins og hefði þar farið eins og hana grunaði:,,í uppsiglingu væri ,,þjóðarflokkur" sem elur á fordómum, hræðslu og öðrum lægstu hvötum mannskepnunnar." Á sama tíma og haldið væri upp á 100 ára afmæli Kvenréttindafélagsins væru konur í þessum flokki niðurlægðar með illri meðferð á Margréti Sverrisdóttur og dæmalausu tölvubréfi Jóns Magnússonar hrl.. ,,Það er nefnilega eins og hælbítarnir séu alls staðar þar sem konur láta að sér kveða í stjórnmálum", svo sem formaður KRFÍ hefði bent á um þróun Frjálslynda flokksins.

Þessi hugleiðing Steinunnar Valdísar endar síðan svona: ,,Að síðustu legg ég til að Ingibjörg Sólrún verði gerð að forsætisráðherra í vor."

En nú er það svo, að ósk Steinunnar Valdísar um forsætisráðherrann rætist ekki nema Ingibjörgu Sólrúnu sé lyft til valda í landinu í krafti Kaffibandalagsins og þar ,eð af þessum sama þjóðarflokki, ,,sem elur á fordómum, hræðslu og öðrum lægstu hvötum mannskepnunnar." Það á að vera ,,hlutverk og verkefni Samfylkingar sem frjálslynds jafnaðarmannaflokks" og óskastjórn Steinunnar verður til með frjálsyndum, stjórn, sem á að skapa ,,sátt um nýtt jafnvægi á Íslandi, og skilur ,,líðan og líf venjulegra Íslendinga."!

Er Steinunni Valdísi Óskarsdóttur alvara í gagnrýni sinni á frjálslynda? Stuðningur hennar við Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra byggist á stuðningi frjálslyndra við þá ríkisstjórn.