30.1.2007 21:11

Þriðjudagur, 30. 01. 07.

Leikurinn við Dani var spennandi og jafn fram á síðustu sekúndu í framlengingu og þá var boltinn í hendi Dana og dugði þeim til sigurs (41-42). Mér þótti glæsilegt að sjá, hve mikinn kraft strákarnir höfðu í seinni hálfleik, þegar þeir unnu upp forskot Dana.

Ég hafði spáð því, að okkar lið myndi keppa um þriðja sætið - nú verður keppt um hið fimmta við Rússa. Gangi strákunum okkar sem allra best!

Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi hægri manna í Frakklandi, var í London í dag. Hann snæddi hádegisverð með Tony Blair, forsætisráðherra Breta, og fór um hann lofsamlegum orðum og sagðist standa honum mjög nærri um margt. Blair hefði tekist að stuðla að friði á N-Írlandi, draga úr atvinnuleysi og nútímavæða Bretland. Sarkozy sagðist vilja vinna sem best fyrir þjóð sína og þess vegna vildi hann einnig hitta þá í öðrum löndum, sem hefðu gagnast þjóð sinni vel.

Þá hélt Sarkozy framboðsfund með brottfluttum Frökkum í London en þeir eru um 250 þúsund af um 300 þúsund í Bretlandi öllu. Hann sagðist mundu auðvelda þeim að snúa aftur til Frakklands með því að breyta frönsku atvinnu- og þjóðlífi og gagnrýndi þar sérstaklega 35 stunda vinnuvikuna í Frakklandi, sem komið hefði verið á í forsætisráðherratíð sósíalistans Lionels Jospins.

Í ráði hafði verið, að Michele Alliot-Marie, varnarmálaráðherra Frakka, yrði í för með Sarkozy til London til að staðfesta samstöðu þeirra í forsetakosningunum, en Alliot-Marie hafði verið orðuð við framboð gegn Sarkozy meðal franskra hægri manna, en hún er handgengin Jacques Chirac, firseta Frakklands, sem er ekki í hópi áköfustu stuðningsmanna Sarkozys.

Þau Sarkozy og Alliot-Mary voru á ráðherrafundi með Frakklandsforseta mánudaginn 29. janúar. Að fundinum loknum hnippti Chirac í varnarmálaráðherrann og sagði henni, að hún ætti ekkert erindi til London, hún ætti að hitta sig að nýju í forsetahöllinni í stað þess að slást í för með Sarkozy. Fór hún því hvergi. Í London sagðist Sarkozy sakna varnarmálaráðherrans en taldi fráleitt, að fjarvera hennar væri til marks um innanflokksátök vegna framboðs síns.