25.1.2007 20:55

Fimmtudagur, 25. 01. 07.

Nú dregur að 12 ára afmæli síðu minnar en ég miða við 29. janúar 1995, þegar ég ræði stofndag hennar. Mikið hefur breyst í netheimum á þessum árum og einhvers staðar sá ég, að nú væru 5000 bloggsíður á mbl.is. Ég veit ekki hver er munurinn á bloggsíðum og öðrum vefsíðum einstaklinga. Ég kippi mér að minnsta kosti ekki upp við að vera kallaður bloggari, þótt ég líti ekki endilega á mig sem slíkan, þar sem ég veit ekki alveg hvað í því felst að slást í þann félagsskap. Tilgangur minn með þessari síðu var, hefur verið og er að halda utan um það, sem mér finnst þess eðlis, að ég vilji geyma hér á þessum stað. Kannski er þetta ein tegund söfnunaráráttu, að halda utan um eitthvað, svo að það gleymist ekki.

Í dag var auglýst í John F. Kennedy School of Government í Harvard, að ég flytji þar fyrirlestur 21. febrúar næstkomandi.

Í gær festi ég það í minni síðunnar, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, varð hinn versti og blótaði í þingsalnum vegna svars, sem ég gaf honum við spurningum hans um umfang leyniþjónustustarfsemi. Hann telur sig líklega vera að ná sér niðri á mér með því að leggja fyrir níu spurningar um þetta efni og krefjast skriflegs svars. Hann ritar greinargerð með þessum spurningum sínum og segir í lok hennar:

„Viðleitni dómsmálaráðherra til að svara efnislega, eins ítarlega og rétt og frekast er unnt og draga ekkert undan þó óþægilegt kunni að vera, verður prófsteinn á það hvort dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hyggst sýna vilja, þó síðbúinn verði, til að virða stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna til upplýsinga um opinber mál eður ei.“

Mér skilst á sjónvarpsfréttum, að Steingrímur J. ætli að klaga mig til forsætisnefndar þingsins fyrir að svara honum ekki eins og hann telur að svarið eigi að vera. Nefndin hlýtur að gefa mér færi á andmælum, taki hún kvörtunina fyrir. Ég vænti þess jafnframt, að forsætisnefnd hugi að orðbragði þingmannsins í þingsalnum um leið og hún skoðar þetta mál.

Vísan Steingríms J. í stjórnarskrána og túlkun hans á þann veg, að í 54. gr. hennar felist eitthvert vald þingmanns til að ákveða, hvernig ráðherra svarar þingmanni, er einfaldlega röng eins og svo margt, sem Steingrímur J. hefur sagt um þessi svonefndu hleranamál.

Þingmaður hefur rétt til að spyrja en það er ráðherrans að svara. Ég hef þegar svarað Steingrími J.  tvisvar vegna þessa máls hinn 9. október 2006 og 24. janúar 2007. Steingrímur J. kvartar undan því, að samhljómur sé á milli svaranna: Hvernig má annað vera, þegar sagt er satt og rétt frá? Auðvitað verður þriðja svarið á sama veg - hver getur búist við öðru?

Ef Steingrímur J. veit, hvernig svarið á að vera við þessum spurningum hans, hvers vegna er hann þá að spyrja? Ef hann veit meira en ég um þessi mál, hvers vegna er hann þá spyrja mig? Hann gefur að minnsta kosti til kynna, að hann viti nóg, til að segja svör mín ófullnægjandi. Eins og spurt var á sínum tíma: Hvernig get ég vitað betur en sá sem veit best? Þannig er einmitt að eiga orðastað við Steingrím J., því að hann veit alltaf allt best og nú telur hann, að meira að segja stjórnarskráin veiti honum þennan rétt til að vita best.