18.1.2007 18:54

Fimmtudagur, 18. 01. 07.

Fór síðdegis í ferð með Magnúsi Gunnarssyni, formanni þróunarfélagsins um framtíð varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli, um svæðið og kynnti mér ýmsar byggingar, sem þar er að finna.

Þá leit ég inn á glæsilega kosningaskrifstofu Vöku í JL-húsinu og heilsaði upp á hinn vaska hóp, sem þar vinnur ötull að sigri félagsins í komandi stúdentaráðskosningum.

Í alþingi hélt stjórnarandstaðan áfram málþófinu um hlutafélagavæðingu ríkisútvarpsins. Ég tek heilshugar undir með þessum bloggara. Hann lýsir því nákvæmlega, hvernig komið er fyrir stjórnarandstöðunni í málinu. Nú er sagt frá því í fréttum, að stjórnarandstaðan sé tilbúin til samninga um málið: Lögin taki ekki gildi, fyrr en eftir kosningar. ´

Tilboðið snýst að sjálfsögðu um, að meirhlutinn hjálpi stjórnarandstöðunni út úr ógöngum hennar. Er hún ekki lengur sjálfbjarga?

Nú hefur verið talað lengur á alþingi um þessa skipulagsbreytingu á RÚV en talað var um EES-samninginn á sínum tíma! Svo kemur formaður þingflokks Samfylkingarinnar og segir, að þetta snúist allt um gildistökudag laganna!! Náist meginmarkmið stjórnarandstöðunnar í kosningunum, þ e. að mynda nýjan meirihluta á þingi, getur hún breytt lögum um ríkisútvarpið eftir kosningar án tillits til gildistökudagsins.

Hvers vegna flytja stjórnarandstæðingar allar þessar ræður um frumvarpið, ef þeir hafa aðeins áhyggjur af gildistökudeginum?