17.1.2007 23:35

Miðvikudagur, 17. 01. 06.

Við, sem börðumst fyrir frjálsu útvarpi fyrir rúmum 20 árum, skemmtum okkur oft við að rifja upp orð andstæðinga þess. Þeri fundu því allt til foráttu og töldu upphaf að endalokum heilbrigðrar fjölmiðlunar að leyfa fleirum en ríkinu að reka útvarpsstöð.

Um það mál má segja, að tekist hafi verið á um grundvallarbreytingu, að afnema einokun ríkisins á þessu mikilvæga sviði. Umræðurnar á alþingi núna, þegar stjórnarandstaðan talar daginn út og daginn inn. snúast um skipulagsbreytingu á ríkisútvarpinu, að breyta því úr ríkisstofnun í ríkishlutafélag. Ég er viss um, að margir munu skemmta sér vel yfir því, þegar fram líða stundir, að rifja upp maraþonræðurnar, sem nú hafa verið fluttar um þessa skipulagsbreytingu, eða við að rifja það upp, hve lengi margir hafa staðið gegn henni eins og heimurinn kunni að farast vegna þessa. Hið einkennilegasta verður, að þeir, sem eru á móti þessari leið til að efla ríkisútvarpið, segjast vera helstu stuðningsmenn þess.

Líklega verður stjórnarandstaðan, sem talar sig nú dauða í þessu máli, hlægilegri, þegar fram í sækir, en þeir, sem lögðust gegn því, að á Íslandi yrði litasjónvarp - það myndi setja efnahag þjóðarinnar á hliðina að innleiða það.

Í kvöld gafst mér tóm til að sjá þýsku kvikmyndina Das Leben der Anderen, sem gefur færi á því að skyggnast inn í Stasi-þjóðfélagið í Austur-Þýskalandi. Myndin hefur hlotið fjölda verðskuldaðra verðlauna í Þýskalandi. Póst-módernistarnir, sem skrifa um stjórnarhætti kommúnista á þessum árum, eins og þar hafi ekki verið alræðisstjórn, að minnsta kosti ekki eftir daga Stalíns, ættu að sjá þessa mynd, en hún gerist skömmu fyrir og eftir hrun Berlínarmúrsins.