15.1.2007 7:01

Mánudagur, 15. 01. 07.

Alþingi kom saman að nýju eftir jólaleyfi klukkan 13.30 í dag og þá strax tók stjórnarandstaðan til við að ræða um hlutafélagavæðingu RÚV og nú var hrópað út af því, að hún hefði ekki fengið að sjá bréf, sem gengið hefðu á milli eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og ráðuneyta.

Hið einkennilega við þessar upphrópanir er, að þær snúast ekki um skipulag á RÚV heldur um það, hvort heimilt sé að evrópskum reglum að reka ríkisútvarp eða ekki. Evrópureglur hafa verið settar um þetta efni án tillits til þess, hvort ríkisútvarp eða útvarp í almannaþágu er hlutafélag eða ekki. Rupert Murdoch og öflugir félagar hans, sem eiga fjölmiðla í Evrópu, vilja þrengja að ríkisútvörpum og helst loka þeim.

Skiljanlegt er að Fréttablaðið og aðrir Baugsmiðlar leggist gegn ríkisútvarpi hér, þeir eru í sama liði og Rupert Murdoch, þeir vilja gera ríkisútvarpið sem tortryggilegast til að veikja stöðu þess, þeim er ljóst. að hlutafélagavæðing styrkir innviði þess og gerir það að öflugri keppinaut.

Hið einstaka við þessar umræður á alþingi Íslendinga er, að vinstriflokkar skuli gera hverja tilraunina eftir aðra til að hindra framgang lagasetningar, sem er til þess fallin í senn að nútímavæða ríkisútvarpið og hlutafélagavæða það til að styrkja innviði þess.

Væri þetta málþóf Marðar Árnasonar og Ögmundar Jónassonar til marks um, að þeir hefðu snúist til hægri, mætti sýna þeim skilning, því að beygjan hjá þeim þyrfti að vera stór og taka sinn tíma, en málþófið er ekki þess eðlis, það byggist á einhverri innbyggðri afturhaldssemi og andstöðu við allar breytingar. Raunar þarf ekki annað en nefna orðið hlutafélag í þingsalnum til að Ögmundur hlaupi upp til handa og fóta og hefji andmælaræður.

Ég hef í mörg ár verið talsmaður þess, að ríkisútvarpinu verði breytt í opinbert hlutafélag. Ef það verður ekki gert kemst það ekki úr tilvistarkreppunni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er tekin að hörfa í evru-umræðunum. Fyrir nokkrum sólarhringum var hún þeirrar skoðunar, að krónan væri ónýt og það ætti að taka upp evru. Nú er Ingibjörg Sólrún þeirrar skoðunar, að setja eigi stefnuna á Evrópusambandsaðild og á evru-aðild, það muni setja okkur ær skorður í hagstjórninni, að okkur verði bjargað. Hún telur hagvöxt hér of mikinn, það beri að draga úr honum og verði best gert með því að smeygja sér í gapastokk evrunnar. Hún vill, að hagsmunir Frakka, Þjóðverja og kannski Ítala ráði ramma íslensks efnahagslífs, betra sé að búa við þær skorður en að stjórna eigin gjaldmiðli.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem nú fer með pólitíska forystu Evrópusambandsins, lýsti um helgina áhyggjum sínum vegna gagnrýni á evruna í viðtali við Le Monde, franska dagblaðið. Hún hafnaði með öllu sjónarmiðum forsetaframbjóðenda stóru stjórnmálaflokkanna í Frakklandi, Nicolas Sarkozy og Segolene Royal um pólitíska stjórn á evrópska seðlabankanum.

Merkel hvatti evrópska stjórnmálamenn til að hætta að kenna evrunni um efnahagsvanda heima fyrir, þeir ættu frekar að grípa til umbóta í eigin ranni. Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu og fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lætur sér ekki segjast, því að hann telur, að efnahagsvandi Ítalíu eigi upptök sín í evrunni og hvetur seðlabanka Evrópu til að falla frá vaxtahækkunum.

Kenning Ingibjargar Sólrúnar um, að ekki þurfi frekar að huga að stjórn efnahagsmála eftir upptöku evru eða með því einu að stefna á að komast undir ok hennar, stenst ekki neina gagnrýni.