7.1.2007 21:45

Sunnudagur, 07. 01. 07.

Las grein í bandaríska tímaritinu Commentary um franskan menntaskólakennara, Robert Redeker, sem ritaði harðorða grein í Le Figaro í deilunum um orð Benedikts 16. páfa um múslima. Greininni var dreift á netinu og barst samdægurs í arabískri þýðingu til þeirra, sem það mál tala. Greinin var úthrópuð í al Jazeera sjónvarpsstöðinni og tölublaðið af Le Figaro var bannað í Egyptalandi og Túnis.

Redeker var hótað með bréfum og tölvupósti. Á islamskri vefsíðu var hann dæmdur til dauða og þar var birt heimilisfang hans og mynd af húsi hans til að auðvelda framkvæmd dauðadómsins. Redeker óttaðist um eigið líf og fjölskyldu sinnar og leitaði ásjár hjá staðarlögreglunni en hún beindi tilmælunum til gagnjósnastofnunarinnar. Að ráði starfsmanna hennar flutti Redeker með konu sína og þrjú börn þeirra á brott frá heimili fjölskyldunnar og leituðu þau skjóls á leyndum stað. Síðan hafa þau ferðast úr einni borg í aðra á eigin kostnað en undir lögregluvernd. Franska menntamálaráðuneytið hefur skipað annan kennara í stað Redekers, sem snýr líklega aldrei aftur til síns fyrra starfs.