23.12.2006 21:09

Laugardagur, 23. 12. 06.

Veðrið var betra í dag en vænta mátti af spám - raunar hafði ég ekki reiknað með að geta gert mikið utan húss fyrir hádegi vegna óveðurs, en strax klukkan 08.00 var ágætt veður, þegar ég skrapp í sund og síðan var ekki undan neinu að kvarta við annir dagsins utan húss og innan.

Svo virðist sem það komi öllum í opna skjöldu (nema sérfræðingi Danske bank), að alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) hafi lækkað lánshæfismat Íslands. Hjá Danske bank hafa menn lengi verið þeirrar skoðunar, að allt myndi fara hér til fjandans í efnahagsstjórninni og þar er farið lofsyrði um hverja vísbendingu um réttmæti þeirrar hrakspár.

Efnahagsþróun ræðst ekki síður af sálarástandi en hagfræðilegum kröftum og takist að fóðra þá skoðun, að ekki sé unnt að treysta á efnahagslega velgengni Íslendinga eða hún standi á veikum grunni, leiðir það eitt til ófarnaðar. Afstaða til íslensks efnahagslífs ræðst auðvitað af þekkingu á því - ef allir, sem best þekkja til mála hér, eru þeirrar skoðunar, að niðurstaða S&P komi á óvart, kunna hinir fávísu að spyrja: Byggist niðurstaða S&P á sömu þekkingu og reynslu þeirra, sem eru undrandi?

Að útgjöld ríkisins aukist við afgreiðslu alþingis á fjárlagafrumvarpi er ekkert einsdæmi og gerist, hvort sem kosningar eru á næsta leiti eða ekki.  Hafi sérfræðingur S&P hrokkið við vegna þessa, ber það ekki vott um djúpstæða þekkingu.

Kannski hefur hugtakið „kosningafjárlög“ ruglað einhvern í ríminu, en stjórnarandstaða notaði það talsvert í umræðum á alþingi. Hitt kann einnig að vera, að sérfræðingur S&P telji hugsanlegt, að stjórnarandstaðan nái sér á strik á kosningaári og komi að því eftir kosningar að móta efnahagsstefnuna - þess vegna sé talin ástæða til að bæta hag lánveitenda með ákvörðunum, sem leiði til verri lánskjara fyrir Íslendinga.