22.12.2006 18:59

Föstudagur, 22. 12. 06.

Síðdegis fór ég í björgunarmiðstöðina við Skógarhlíð og hitti Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, og þakkaði hið mikla og góða starf, sem björgunarsveitir félagsins hafa unnið, en óvenjulega annasamt hefur verið hjá þeim víða um land undanfarna óveðursdaga og enn er spáð ofsaveðri að morgni Þorláksmessu. Í skrifstofum félagsins í Skógarhlíð var fjöldi manns að störfum. Er ómetanlegt fyrir þjóðina að eiga þennan fjölmenna hóp sjálfboðaliða að, þegar hætta er á ferðum.

Mér þótti skrýtið, að hvorki hljóðvarp né sjónvarp ríkisins sendi menn á vettvang, þegar við Árni M. Mathiesen rituðum undir smíðasamninginn um nýtt varðskip sl. miðvikudag, en í ár er 31 ár liðið síðan varðskip var síðast smíðað fyrir okkur Íslendinga, svo að ekki er unnt að skýra fjarveruna með því, að atburðir sem þessir séu alltaf í fréttum. Hitt er víst, að þessar fréttastofur eru áhugasamari um afskipti stjórnvalda af málefnum gæslunnar, þegar talið er, að eitthvað megi betur fara.

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var rætt við Árna Pál Árnason um niðurstöðu ríkissaksóknara vegna ummæla Árna Páls um að sími hans hefði verið hleraður, þegar hann var starfsmaður utanríkisráðuneytisins. Árni Páll vakti máls á þessu, þegar hann var að hefja prófkjörsbaráttu sína innan Samfylkingarinnar í suðvestur kjördæmi. Hann sagði í fréttunum, að hann hefði aldrei vænst neins af rannsókn ríkissaksóknara - þetta væri „pólitískt mál“ en ekki sakamál. Það þyrfti að fjalla um þetta á pólitískum vettvangi til að gefa mönnum upp sakir og létta af þeim trúnaði. Árni Páll er sem sagt sama sinnis og Jón Baldvin Hannibalsson, að starfsmenn síma og lögreglu hafi brotið lög og þori ekki að kannast við það af ótta við refsingu. Þetta eru dæmalausar ásakanir og enn furðulegri en áður, eftir að niðurstaða ríkissaksóknara hefur verið kynnt.

Páll Vilhjálmsson ræðir um þetta á vefsíðu sinni og bendir á pólitískan vinkil á málinu að því er varðar framgöngu Jóns Baldvins. Pólitíski vinkillinn að því er varðar Árna Pál felst að sjálfsögðu í því, að hann kaus frekar að veifa röngu tré en öngu til að draga að sér athygli í prófkjörinu. Þess vegna er þetta „pólitískt mál“ frá sjónarhóli Árna Páls, þótt hann kjósi í sömu andrá að saka símamenn og lögreglumenn um að hafa brotið lög og þora ekki að kannast við það af ótta við refsingu. Árni Páll hefur ekki mikla sæmd af þessum málflutningi.

Ég bendi einnig á það sem þessir bloggarar segja: Ómar R. Valdimarsson, Ingvi Hrafn Jónsson og Guðmundur Magnússon.