20.12.2006 16:26

Miðvikudagur, 20. 12. 06.

Sögulegur atburður var í Þjóðmenningarhúsinu í dag kl. 14.00, þegar ritað var undir smíðasamning um nýtt varðskip við ASMAR skipasmíðastöðina í Chile. Varðskip var síðast smíðað fyrir Íslendinga árið 1975, og var það Týr. Nýja skipið verður mun stærra en Ægir og Týr, ef allt gengur samkvæmt umsaminni áætlun á það verða tilbúið um mitt ár 2009. Ég flutti ávarp við athöfnina.

Í Morgunblaðinu í dag er birt viðtal við Ulf Berthelsen, skipherra á danska gæsluskipinu Triton, vegna atburðanna í gær, þegar skipverji hans fórst við björgunarstörf. Í viðtalinu segir meðal annars:

„Mér þætti ákaflega vænt um að fá að koma hér á framfæri djúpu þakklæti mínu til bæði Gæslunnar og ekki síður sjúkrahússins í Keflavík. Allir sjömenningarnir eru nú komnir aftur um borð og hafa það gott. Mér fannst frábært hvað þeir fengu góða meðhöndlun á sjúkrahúsinu, menninrnir eiga varla orð yfir þær einstöku móttökur,“ sagði Berthelsen.

Hann var spurður hver ástæðan gæti verið fyrir því að báðir mótorar gúmbátsins brugðust. „Ég er búinn að tala við áhöfnina á bátnum. Það sem gerðist var að heljarmikill brotsjór lyfti bátnum upp. Gúmbáturinn stóð alveg lóðréttur. Þetta hafa mótorarnir einfaldlega ekki þolað. Við vitum samt ekki nákvæmlega hvað gerðist en bátnum hvolfdi rétt á eftir og öllum mönnunum skolaði fyrir borð. Þeir stóðu smástund í sjó upp að hnjám á skeri í brimgarðinum en þá kom feiknamikil alda og fleygði þeim aftur í hafið.

Mér finnst þeir hafa staðið sig afburðavel við þessar hræðilegu aðstæður. Þeir sýndu fagmannleg vinnubrögð, héldu hópinn eftir mætti og hjálpuðu hver öðrum. Þeir ákváðu fyrirfram að sá sem var orðinn allt of kaldur skyldi verða hífður fyrst upp í þyrluna. Þeir héldu alltaf ró sinni.

Að auki var björgunin frábært dæmi um góða samvinnu okkar við Landhelgisgæsluna íslensku. Fyrst vorum við beðnir um hjálp, síðan kom í ljós að við gátum ekkert gert og þetta endaði með því að þeir björguðu okkur. Þetta samstarf er alltaf einstaklega gott og ég held að báðir aðilar telji það mjög mikilvægt,“ sagði Ulf Berthelsen, skipherra á Triton. “

Þegar rætt er um samstarf Íslendinga og Dana eða Íslendinga og Norðmanna um öryggismál er þetta kjarni málsins, að menn geti unnið saman, þegar mest á reynir og brugðist við aðstæðum á þann veg, að veita hver öðrum gagnkvæmt öryggi. Ég tel, að í Morgunblaðinu hafi undanfarið verið lögð alltof mikil áhersla á hernaðarlega þáttinn í samstarfi okkar við Dani og Norðmenn - hann getur verið mikilvægur, ef á hann reynir, en aðrir þættir samstarfsins eru mikilvægari um þessar mundir og þeir snerta samstarf á sviði lögreglu og landhelgisgæslu. Ég átta mig ekki alveg á því, hvers vegna Morgunblaðið valdi þá leið að leggja höfuðáherslu á hernaðarþáttinn í öryggissamstarfi við Dani og Norðmenn.