18.12.2006 22:08

Mánudagur, 18. 12. 06.

Þegar rætt er um persónuvernd er ekki síst átt við, að ekki sé safnað á einn stað svo miklu magni af upplýsingum um einstakling, að hann sé eins og berskjaldaður og sviptur rétti sínum til einkalífs. Settar hafa verið flóknar reglur um þessi mál, sem opinberum aðilum ber að hlíta og sjá til þess, að virtar séu.

Nú er hins vegar svo komið með aðgangi að upplýsingum á netinu í gegnum leitarvélar eins og Google eða Blingo Search, að unnt er að kalla fram á hvaða nettengda tölvu sem er ótrúlegt magn upplýsinga um menn og málefni, sem gerir einstaklega auðvelt að draga upp nokkuð glögga mynd af fólki, sem er í sviðsljósinu eða skráð af einhverju tilefni inn á veraldarvefinn. Persónuverndarsjónarmið víkja í raun fyrir mætti þessara ölfugu leitarvéla, sem talið er sjálfsagt að skrái allt, sem þær geta og miðli áfram til annarra. Að vísu tókst kínverskum stjórnvöldum að knýja Google til að laga sig að sínum óskum í von um, að þau gætu á þann veg haft stjórn á upplýsingaöflun þegna sinna. Í Kína óttast stjórnvöld fátt meira en frjálst streymi upplýsinga.

Þegar rætt er um breytingar á blaðamennsku nú á tímum, er ekki síst vísað til þess, að blaðamenn hafi hæfileika til að lesa úr öllum þeim upplýsingum, sem eru við fingurgómana, og matreiða þær á þann veg, að lesandinn fái nýja sýn á stefnu eða strauma. Tölur um samdrátt í eintakafjölda blaða sýna, að þeim tekst ekki að miðla efni á þann veg, að þau haldi í lesendur sína hvað þá heldur fjölgi þeim. The Wall Street Journal hefur boðað nýja stefnu við framsetningu efnis til að koma til móts við nýja tíma, en blaðið hefur mesta útbreiðslu meðal þeirra dagblaða í Bandaríkjunum, sem njóta mestrar virðingar. The New York Times hefur tekið upp nýtt forrit við framsetningu á efni sínu á netinu, en vefsíða þess er mest heimsótta vefsíða dagblaðs í Bandaríkjunum og kannski heiminum öllum.