14.12.2006 22:29

Fimmtudagur, 14. 12. 06.

Evrópunefnd hélt 37. fund sinn í dag og hitti fulltrúa hagsmunasamtsaka, áhugasmannasamtaka um Evrópumál og fræðimenn frá háskólum.

Ég varð undrandi, þegar ég las viðhorfsgrein Höllu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu í dag, þar sem hún ræðir um tímaritið Þjóðmál, en nýjasta hefti þess kom einmitt úr prentsmiðju í dag. Í greininni ræðir Halla um greinar í 3. hefti þessa árs, hún lýkur máli sínu á þennan veg:

„Fræði- og stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifa í Þjóðmál með óbreyttu sniði.“

Halla er greinilega vinstrisinnaður feministi. Höllu er misboðið, af því að hún er ósammála höfundum í Þjóðmálum um fóstureyðingar og alþjóðavæðingu. Halla er einnig blaðamaður við Morgunblaðið. Hvað þætti henni um, ef andmælendur hennar blésu í lúðra og segðu fólki að skrifa ekki  í Morgunblaðið, af því að þar starfaði vinstrisinnaður feministi?

Ég las þessa grein eftir Höllu, af því að minnst var á Þjóðmál í fyrirsögn. Annars hefði ég látið mér skrif hennar í léttu rúmi liggja. Ég segi ekki upp  Morgunblaðinu vegna Höllu. Ég skrifa einnig í blaðið, þrátt fyrir Höllu. Líklega er ég umburðarlyndari en Halla og ekki haldinn sömu póltitísku rétthugsun. Af skrifum Höllu get ég aðeins dregið eina ályktun: Heimur versnandi fer!

Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifa ég umsögn um bók Ásgeirs Péturssonar Haustliti  en frá henni var einmitt sagt í Kastljósi í kvöld http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301675/4

Mér finnst fyndið, að þær Guðfinna Bjarnadóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir hjá Háskólanum í Reykjavík taki að sér að skjalda Dag B. Eggertsson vegna Kastljóss í gærkvöldi og ummæla Björns Inga Hrafnssonar. Spyrja má: Hefur Dagur B. ekki mátt til að verjast sjálfur?