5.12.2006 18:10

Þriðjudagur, 05. 12. 06.

Á fundi dómsmála- og innanríkisráðherra Schengen-ríkjanna í morgun hér í Brussel var ákveðið, að 31. desember 2007 yrði landamæraeftirliti á sjó og landi gagnvart nýju ESB-ríkjunum hætt og 29. mars 2008 á flugvöllum - svo framarlega, sem leyst haf verið úr öllum tæknilegum vandamálum.

Síðdegis fórum við með sendiráðsfólki og kynntum okkur aðstæður í menningarmiðstöðinni Bozar (áður Beux Arts) í hjarta Brussel, þar sem ætlunin er að efna til íslenskrar menningarkynningar snemma árs 2008. Allar aðstæður eru þarna eins og best verður kosið. Vonandi rætast þessi áform um menningarkynninguna - fátt er betur til þess fallið að bera hróður lands og þjóðar en kynning á íslenskri menningu. Það þekki ég af langri reynslu.

Nú sit ég á flugvellinum í Brussel og bíð eftir flugi til Aþenu, þar sem ég á að flytja ræðu um orkuöryggi á fimmtudaginn á ársþingi Atlantic Treaty Association - ATA. Vonandi verður ekki eins mikið slagveður þar og hér í Brussel og í Amsterdam á dögunum.