30.11.2006 18:24

Fimmtudagur, 30. 11. 06.

Það er merkilegt að sjá. hvernig fjölmiðlar segja frá því, að fyrir alþingi hefur verið lagt frumvarp, sem lækkar opinberar álögur á almenning um 12,5 milljarða króna. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir á líklega vinningin í frumlegheitum. Fyrirsögnin á frétt hennar á visir.is var á þann veg, að ætla hefði mátt, að hún hefði verið samin af harðsvíruðum gæslumanni ríkissjóðs, hún var á þennan veg:

Ríkið verður af 12,5 milljörðum

Efnisatriði málsins er, að lækka skal matarverð en virðisaukaskattur lækkar úr fjórtán prósentum í sjö, þann fyrsta mars, og vörugjöld af öðru en sykri og sætindum falla niður. Þá lækkar einnig virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum sem báru áður fjórtán prósenta virðisaukaskatt, til að mynda bókum, blöðum, húshitun og hótelgistingu. Virðisaukaskattur af þjónustu á veitingahúsum lækkar úr tuttugu og fjórum og hálfu prósenti í sjö og einnig af annarri veitingaþjónustu, geisladiskum, hljómplötum og segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum. 

Frumvarpið um skattalækkunina var rætt í dag en í upphafi þingfundar í morgun voru greidd atkvæði um afbrigði til að það kæmist á dagskrá og var engu líkara en stjórnarandstaðan teldi sig vera að gera stjórnarflokkunum stórgreiða með því að samþykkja afbrigðin. Hvers vegna? Jú, af því að það væri svo stutt til jóla og aðeins vika eftir af þingi fyrir jólaleyfi, það gæti meira að segja farið svo, að það reyndist ekki unnt að ljúka málinu fyrir jólaleyfið.  Þetta tal 30. nóvember um jólaleyfi og tímahark vegna jólanna, hljómaði einkennilega, svo að ekki sé meira sagt.

Sá nýjustu Bond-myndina Casino Royal og skemmti mér vel. Með þessari mynd tekur gerð Bond-mynda nýja og góða stefnu. Sum atriðin eru vissulega harðneskjulegri en í fyrri myndum,  frásögnin og framvinda hennar færist þó nær raunveruleikanum og minna er um tæknibrellur, sem voru orðnar all öfgakenndar og hlægilegar.

Eins og ég sagði frá í dagbókarfærslu minni í gær tel ég Heimi Má Pétursson á Stöð 2 hafa verið hlutdrægan í fréttum sínum þann dag um hleranamál. Þar sagði hann meðal annars:

„Sjálfstæðismenn töldu að símar forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins og Vísis væru hleraðir á 4. áratug síðustu aldar í tíð vinstristjórnar sem þá var við völd. Maðurinn sem sagður er hafa flett ofan af þessum meintu hlerunum var Bjarni Benediktsson sem seinna átti eftir að fyrirskipa hleranir á símum vinstrimanna í tíð sinni sem dómsmálaráðherra. “ Feitletrun mín.

Þetta er dæmalaus fréttamennska.