9.11.2006 18:48

Fimmtudagur, 09. 11. 06.

Egill Helgason tekur því greinilega illa, sem ég sagði um álitsgjafa hér á síðunni á dögunum. Hann svarar á þann veg, að stjórnmálamenn fái þá álitsgjafa, sem þeir eiga skilið! Síðan heldur hann áfram að fjargviðrast yfir því, að ég skuli nota orðið „andstæðingur“ um þá, sem berjast við mig á stjórnmálavettvangi. Hann rökstyður, að orðið megi ekki nota á þennan frumlega veg: „Eða að hvaða leyti er miðlungs Samfylkingarmaður andstæðingur Björns í raun og veru? Þá greinir kannski á um fáeina hluti en líklega eru þeir sammála um miklu fleira. Þeir gætu jafnvel haft sama smekk á kvikmyndum.“

Röksemdarfærslan byggist á því viðhorfi Egils, að háttsettir stjórnmálamenn séu „vænisjúkir“ og tekur hann þar undir með öðrum álitsgjafa, Jónasi Kristjánssyni. Þessar vangaveltur Egils staðfesta, að stjórnmálaleg álitsgjöf hér á landi sé á allt öðru og lægra plani en annars staðar. Egill og aðrir í hans liði kjósa að tala til stjórnmálamanna á eigin vegum en ekki annarra.

Matthías Johannessen birti ljóðabálkinn Hrunadans í Morgunblaðinu  síðastliðið sumar. Þar yrkir hann meðal annars um álitsgjafa og segir:

Það er vegið að þeim sem vitja síns tíma með dug

eins og vandræðaskáld sem telur sjálfum sér borgið

en það er víst erfitt að komast á krassandi flug

í kastljósi frétta og venja sig sífellt við orgið

í álitsgjöfum sem hatast við annarra hug

og halda í gislingu þjóð sem ráfar um torgið

þar sem frelsið er iðkað og afskræmt eins og gengur

og enginn veðjar á frelsisgyðjuna lengur.