4.11.2006 19:49

Laugardagur, 04. 11. 06.

Sagt frá því í fréttum NFS í kvöld, að Alyson J. K. Bailes, forstjóri SIPRI, alþjóðlegrar friðarstofnunar í Stokkhólmi, teldi ekkert óeðlilegt við það, að varnaráætlanir Bandaríkjamanna vegna Íslands væru ekki birtar opinberlega - slík leynd væri í samræmi við það, sem gerðist í öðrum löndum. Forvitnilegt verður að fylgjast með því, hvort þessi yfirlýsing hafi áhrif á stjórnarandstöðuna hér, sem telur reginhneyksli, að varnaráætlunin sé ekki birt opinberlega. Þá var ekki annað að heyra en forstjórinn teldi einsýnt, að hlutverk lögreglu, landhelgisgæslu og landamæravarða mundi aukast á næstunni til að tryggja öryggi landsmanna. Það kom ekki fram, hvort Bailes hafi verið spurð um, hvort hún teldi nauðsynlegt að efla greinigar- og öryggisþjónustu lögreglu.

Morgunblaðið segir í forystugrein í morgun, að til að herða aðgerðir gegn fíkniefnasölum eigi lögreglan að fylgjast með fjárstreymi, því að viðskipti með fíkniefni séu talin skipta milljörðum. Eftirlit með fjárstreymi byggist á því að hafa heimildir til þess með vísan til laga um persónuvernd og laga um meðferð sakamála eða sérstakra laga um greiningar- og öryggisþjónustu að stilla saman upplýsingar tengdar nafni einstakra manna, sem liggja undir rökstuddum grun eða jafnvel ekki.