25.10.2006 22:12

Miðvikudagur, 25. 10. 06.

Evrópunefnd kom saman í hádeginu.

Eftir þann fund fór ég og tók þátt í hringborðsumræðum, sem útlendingastofnun boðaði til að ræða málefni útlendinga og innflytjenda. Ég lýsti þar þeirri skoðun minni, að ríkið ætti að standa straum af kostnaði við skyldubundið íslenskunám útlendinga.

Um klukkan 15.15 var mér gert viðvart um, að samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefði verið mönnum vegna þess, að Continental-flugvél væri að koma til landsins með um 170 manns um borð og með bilaðan hreyfil. Væri mikill viðbúnaður vegna þessa á Keflavíkurflugvelli. Vélin lenti rúmlega 16.00 og gekk það allt vel.

Um klukkan 16.30 ræddi ég við þá Kristófer og Þorgeír á Bylgjunni. Við ræddum lífssýnabanka lögreglunnar, nauðganir og síðan hringborðsumræðurnar um útlendingamál. Þá vísuðu þeir til greinar í Morgunblaðinu í gær eftir Bjarnþór lögreglumann, sem fór mjög lofsamlegum orðum um störf mín sem dómsmálaráðherra og sagðist ég að sjálfsögðu innilega þakklátur fyrir, að störf mín væru metinn á þennan veg.

Björgvin Guðmundsson, ritstjórnarfulltrúi á Fréttablaðinu, ritar leiðara um stöðu mína í blaðið mánudaginn 23. október og leggur mat á hana með hliðsjón af prófkjörinu.

Í dag var 12 síðna kosningablaði mínu dreift til sjálfstæðismanna í Reykjavík og var því vel tekið eftir því, sem mér heyrist.