23.10.2006 20:44

Mánudagur, 23. 10. 06.

Var í kvöld í Íslandi í dag með þeim Pétri Blöndal og Guðlaugi Þór Þórðarssyni en allir viljum við fá stuðning í 2. sætið í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna hér í Reykjavík. Hafi það verið tilgangurinn með að kalla okkur saman til viðtals að ýta undir deilur og ágreining meðal frambjóðenda í prófkjörinu, tókst það alls ekki. Hver um sig gerðum við grein fyrir okkar sjónarmiðum og lýstum nokkrum þáttum úr baráttu okkar.

Ég var til dæmis spurður að því, hvort það hefði komið mér á óvart eða í opna skjöldu, hvernig Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði á fundinum í Valhöll á laugardaginn um hlut minn. Ég sagði svo ekki vera, því að ég vissi vel og betur en aðrir, hve náið við hefðum starfað saman á vettvangi ríkisstjórnarinnar og ekki síst að varnar- og öryggismálum, eftir að hann varð forsætisráðherra. Hefði Geir talað á annan veg en hann gerði um samstarf okkar, hefði það komið mér á óvart, því að þá hefði hann ekki verið að lýsa því.

Þegar rætt var um skoðanir og kynningu á þeim, minnti ég á vefsíðuna mína góðu, en þar reifaði ég skoðanir mínar og enginn þyrfti að fara í grafgötur um þær, sem síðuna skoðaði. Ég hefði orðið þess var, að heimsóknum á síðuna hefði stórfjölgað vegna prófkjörsbaráttunnar síðustu daga.

Síðdegis var ég á kosningaskrifstofu minni og komu þangað margir góðir gestir á meðan ég hafði þar viðdvöl. Met ég það svo, að nú fari fólk að gera upp á milli frambjóðenda og ákveða hvernig það vilji sjá lista flokksins í Reykjavík.