19.10.2006 23:00

Fimmtudagur, 19. 10. 06.

Klukkan 11.45 var ég í Háskólanum í Reykjavík og tók þar þátt í fundi á vegum Lögréttu, þar sem við vorum framsögumenn Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, Lúðvík Bergvinsson alþingismaður og ég. Við ræddum um þörfina á öryggis- og greiningarþjónustu lögreglunnar. Fundarsalurinn var þéttsetinn og svöruðum við spurningum að framsöguræðum loknum. Elías Davíðsson var á fundinum og gerði hróp að mér, sagði mig lygara vegna þess sem ég hefði ritað hér á síðuna skömmu eftir 11. september 2001 um Afganistan.

Síðdegis flutti ég framsöguræður fyrir tveimur frumvörpum á þingi, það er um breytingar á keynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga og um flutning verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til sýslumanna.

Klukkan 17.30 var fundur um skólamál í kosningaskrifstofu minni og sóttu hann 30 til 40 manns en auk mín voru þau Már Vilhjálmsson, skólameistari Menntaskólans við Sund, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi ræðumenn en Helga Kristín Auðunsdóttir, varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, stjórnaði fundinum.

Klukkan 20,00 vorum við í Smárabíói á frumsýningu á Mýrinni eftir Baltasar Kormák. Skemmmtum við okkur prýðilega, enda myndin vel gerð og leikin. Tugir þúsunda Íslendinga munu sjá þessa mynd og auk þess heyrði ég Baltasar segja frá því, að hún vekti þegar athygli dreifingaryrirtækja í Bandaríkjunum.