16.10.2006 21:51

Mánudagur, 16. 10. 06.

Ræddi við þá félaga Kristófer og Þorgeir á Bylgjunni síðdegis í dag um hlerunarmálin svonefndu. Samtal okkar var áður en fréttin barst rétt um klukkan 18.00, að ríkissaksóknari hefði ákveðið að hefja rannsókn vegna ummæla þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Árna Páls Árnasonar um, að símar þeirra hefðu verið hleraðir, þegar þeir störfuðu í utanríkisráðuneytinu um miðjan síðasta áratug.

Fór síðan í Kastljósið um klukkan 19.30, þar sem Sigmar Guðmundsson spurði mig einnig um hleranamálin. Áður en samtal okkar Sigmars hófst var rætt við Árna Pál, þar sem hann taldi af og frá, að rannsókn á vegum ríkissaksóknara skilaði neinu og var það helsta línan í spurningum Sigmars. Ég sagðist ekki skilja, hvernig unnt væri að álykta á þennan veg, áður en Ólafur Hauksson, sýslumaður á Akranesi, greindi frá því, hvernig hann mundi standa að rannsókninni í samvinnu við ríkissaksóknara, sem tilnefndi Ólaf til starfans. Hvernig Árni Páll gæti fullyrt, að saksóknari kæmist ekki til botns í málinu með rannsókn sinni hálftíma eftir að fréttin um ákvörðun hans birtist væri aðeins til marks um pólitískt eðli málsins að hans mati og viðleitni til að halda því á þeim vettvangi.

Ég fór hörðum orðum um þær ásakanir í garð Sjálfstæðisflokksins, að hann hefði rekið einhvers konar leyniþjónustu - það væri af og frá og ekki annað en rangtúlkun fréttamanns á NFS á orðum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings. Það er hins vegar dæmigert fyrir umræðuna, að hver étur þetta upp eftir öðrum - þetta væru kjaftasögustjórnmál.

Þá taldi ég fráleitt að láta að því liggja eins og Sigmar gerði, að ekki væri unnt að treysta ríkissaksóknara eða lögreglu í þessu máli, af því að ég væri sjálfstæðismaður. Ásakanir af þessu tagi í garð embættismanna og lögreglu eru að mínu mati til skammar fyrir þá, sem halda þeim fram og sýna aðeins, hve lítt þeim er annt um málefnalegar umræður.