3.10.2006 22:42

Þriðjudagur, 03. 10. 06.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman í hádeginu í dag og þar tilkynnti Geir H. Haarde, flokksformaður, að fyrir nokkrum mánuðum eða ári, hefði Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri flokksins, sagt sér, að hann hefði hug á að láta af starfi sínu, enda hefði hann gegnt því þá í aldarfjórðung, nú í 26 ár. Síðan hefði verið hugað að eftirmanni Kjartans og nú vildi hann gera tillögu um Andra Óttarsson lögfræðing, hann mundi starfa undir handarjaðri Kjartans um nokkurt skeið og síðan yrði það verkefni formannsins og Kjartans að ganga endanlega frá ráðningu hans sem framkvæmdastjóra. Var þessi tillaga samþykkt umræðulaust.

Geir H. Haarde flutti fyrstu stefnuræðu sína sem forsætisráðherra á alþingi í kvöld og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti jómfrúrræðu sína í umræðunum. Þær voru næsta máttlitlar af hálfu stjórnarandstöðunnar og án nokkurra nýmæla. Fróðlegt var að heyra hvernig gömlu herstöðvaandstæðingarnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon töluðu í tilefni af brottför varnarliðsins. Ingibjörg Sólrún sagði, að „gamall draugur“ hefði verið kveðinn niður og ætti að „grafa stríðsöxina“. Steingrímur J. sagði Morgunblaðið hafa „svívirt“ herstöðvaandstæðinga í Staksteinum í gær og síðan tönnlaðist hann enn á því, að sama ástand hefði verið hér á landi og í Noregi, þar sem norskir jafnaðarmenn nýttu aðstöðu sína í ríkisstjórn til að stunda víðtækar hleranir hjá þúsundum manna. Hvernig Steingrími dettur í hug að einn, tveir eða kannski þrír starfsmenn lögreglunnar í Reykjavík hefðu getað leikið þetta eftir er mér hulin ráðgáta.