24.9.2006 21:07

Sunnudagur, 24. 09. 06.

Enn sannaðist í dag, að ógjörningur er að átta sig á því, hvenær fjölmiðlamenn kveikja á því, hvort eitthvað sé fréttnæmt eða ekki. Hér er ég að vísa til þess, að í dag var sagt frá því í fréttum hljóðvarps ríkisins, eins og um nýmæli væri að ræða, að íslensk og norsk stjórnvöld hefðu ráðið ráðum sínum um kaup á nýjum björgunarþyrlum. Ítarlegustu frásögnina um þetta er að finna í skýrslu um þyrlubjörgunarþjónustu, sem sett var á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 18. júlí síðastliðinn.

Ég ræddi þetta við Einar Þorsteinsson, fréttamann hljóðvarpsins, vegna kvöldfrétta. Hann spurði mig einnig um það, sem hann taldi hafa komið fram í hjá Guðna Th. Jóhannessyni sagnfræðingi, að lögreglan hefði haldið úti einskonar öryggisdeild Sjálfstæðisflokksins. Mér er óskiljanlegt, hvernig sagnfræðingur getur talað á þann veg, að fréttamenn dragi þessa ályktun af orðum hans. Þess vegna sagði ég, að Guðni Th. hlyti sem sagnfræðingur að leggja fram einhver gögn máli sínu til stuðnings. Af reynslu minni bæði sem embættismaður og ráðherra teldi ég þetta fráleitar fullyrðingar.