22.9.2006 19:37

Föstudagur, 22. 09. 06.

Klukkan 11.30 var ég á fundi Sýslumannafélags Íslands og flutti þar ávarp og svaraði fyrirspurnum um málefni á dagskrá dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Klukkan 12.00 hóf hádegisverður í súlnasal hótel Sögu og síðan málþing á vegum Lögfræðingafélags Íslands um drög að frumvarpi um meðferð sakamála, sem réttarfarsnefnd samdi, og nú verður til kynningar á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til 1. nóvember, eins og kom fram í setningarávarpi mínu á málþinginu.

Ég ræddi við fréttastofu sjónvarps ríkisins um það, sem fram kemur í ritgerð Þórs Whiteheads í Þjóðmálum um öryggisþjónustu íslenska ríkisins á tímum kalda stríðsins og lýsti þeirri skoðun, að undrun vekti, hve smátt þetta hefði allt verið í sniðum og starfsemin hefði að sjálfsögðu verið innan ramma laganna, enda hefðu símar til dæmis ekki verið hleraðir án heimildar frá dómurum.

Hlustaði með öðru eyranu á það, sem um ritgerð Þórs var sagt í Speglinum  á rás 1 og brugðust efnistökin þar ekki væntingum, því að þau hafa vafalaust glatt þá, sem telja sig eiga um sárt að binda vegna ritgerðar Þórs.

Skýrt var frá því, að Baugsmiðillinn NFS mundi hætta störfum þetta sama kvöld og Robert Marshall, sem ritaði bréfið Kæri Jón í dagblöðin fyrr í vikunni, hefði verið sagt upp störfum.