28.8.2006 22:55

Mánudagur, 28. 08. 06.

Regla er að komast á fundi og annað eftir sumarleyfi, til dæmis fór ég í fyrsta skipti eftir sumarlokun í hádegisverð í Skála alþingis.

Blaðið snýr sér til Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns frjálslyndra, Lúðvíks Bergvinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, og Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, í tilefni af þeim fréttum úr ræðu minni 24. ágúst, að ég vilji ræða stofnun leyniþjónustu og kanna pólitískan vilja. Fyrirsögnin er að sjálfsögðu málefnaleg: Þráhyggja og bull.

Mér finnst blaðamaðurinn, Höskuldur Kari Schram, gera svör þingmannanna kjánalegri um þetta alvarlega mál en efni standa til, þegar þau eru lesin. Lúðvík Bergvinsson segir meðal annars: „Það er kannski rétt að fara að taka þetta alvarlega en þá gerum við líka ríka kröfu til hans að hann útskýri hvað hann á við.“ Þetta er einmitt það, sem fyrir mér vakir.

Steingrímur J. segir: „Það er fráleitt að stofna einhverja leyniþjónustu sem heyrði bara undir einn pólitískan ráðherra og hefði það verkefni að njósna um fólk.“ Ég er sammála Steingrími J. um þetta enda mun tillaga mín ekki snúast um þá skipan, sem hann telur fráleita.

Engu er líkara en ritstjóri Blaðsins hafi gefið starfsmanni sínum fyrirmæli um að gera orð mín tortryggileg, mér finnst hins vegar ástæðulaust að láta slík fyrirmæli bitna á þeim, sem rætt er við um málið í Blaðinu.

Mér er í raun óskiljanlegt, hvers vegna blaðamenn vilja draga upp brenglaða mynd, þegar þessi mál ber á góma. Greingarstarf lögreglu beinist að öðru en hryðjuverkum, sé mönnum svo annt um, að ekkert sé gert til að styrkja varnir gegn þeim. Ég fékk til dæmis þetta bréf frá móður í dag undir fyrirsögninni: Leyniþjónusta - nýtt hlutverk.

„Mig langar að koma á framfæri við þig hugmynd.
Hvernig væri að einbeita sér að því að koma á fót kröftugum hópi manna sem vinnur að því einu að uppræta sölu á  fíkniefnum sem virðist blómstra hér á Íslandi.
Vissir þú að það er auðveldara fyrir ungling að fá keypt fíkniefni en bjór.
Ég er rasandi yfir því hvað þessi fíkniefnasala virðist fá að blómstra hér á landi.
Er ekki kominn tími til að taka á þessu vandamáli þ.e að uppræta söluaðilana af einhverri alvöru.
Ég er viss um þú ert sömu skoðunar og ég.
Við getum ekki bara talað um forvarnir endalaust, nú er tími til að hjóla í þá sem hagnast af neyslu annarra.“
 
Ég er vissulega sammála því, sem þarna kemur fram. Þær heimildir, sem almennt felast í lögum um leyniþjónustu, veita lögreglu öflugri tæki en nú til að takast á við fíkniefnasala og aðra skipulagða glæpastarfsemi. Hvers vegna skyldi Blaðið setja fyrirsögnina: Þráhyggja og bull á frétt um ráðstafanir til að styrkja löggæslu?