26.8.2006 21:18

Laugardagur, 26. 08. 06.

Fórum uppúr hádeginu í Borgarnes og skoðuðum tvær sýningar Landnámssetursins - um landnámið annars vegar og Egil Skallagrímsson hins vegar. Þótti okkur það allt vel gert. Fjöldi manns var í setrinu, þegar við komum en á þá var að hefjast aukasýning á Mr. Skallagrímsson, þar sem Benedikt Erlingsson er sagður fara á kostu, Við hittum Kjartan Ragnarsson, leikara og leikstjóra, annan stofnanda setursins í anddyri þess, þar sem hann aðstoðaði okkur við að fá heyrnartæki, áður en við héldum á sýninguna um Egil. Á leiðinni út hittum við Sigríði Margréti Guðmundsdóttur, fréttakonu á sjónvarpinu, hinn stofnanda setursins, en hún var á leið að skera blóm til skreytinga í veitingastað, sem þau hjón reka við hlið setursins. Af máli þeirra réðum við, að umsvifin hefðu verið mikil og góð, frá því að setrið var opnað í maí.

Ókum að Reykholti og hlýddum þar á orgel- og söngtónleika klukkan 17.00, þar sem þau komu fram Magnea Tómasdóttir söngkona og Guðmundur Sigurðsson organisti við góðar undirtektir.