5.8.2006 18:46

Laugardagur, 05. 08. 06.

Fór í reiðtúr umhverfis Þríhyrning í dag, þegar mér gafst tækifæri til að slást í för með Eggerti Pálssyni, bónda á Kirkjulæk, en hann tók að sér að leiða hóp hestamanna, sem hafði verið á ferð og ætlaði úr Fljótshlíðinni austan við Þríhyrning að Reynifelli og þaðan áfram austur yfir Rangárnar. Nauðsynlegt er að hafa kunnugan leiðsögumann á þessum slóðum, því að sé farið of austarlega við Þríhyrning má auðveldlega lenda í erfiðum mýrarpyttum en þeim hef ég kynnst í göngum með þeim Fljótshlíðarbændum undanfarin ár.

Ferðin að Reynifelli gekk að óskum og þar skildu leiðir, því að við Fljótshlíðingar héldum í áttina að Vatnsdal og þaðan um Tungu og Tumastaði í áttina að Kirkjulæk aftur og tók ferðin tæpar fimm stundir. Veðrið var eins og best verður á kosið til slíkrar ferðar. Eggert bóndi hafði áhyggjur af því, ef þoka hefði verið austan Þríhyrnings en hún getur orðið mjög þykk, eins og í fyrsta sinn sem ég var þar í göngum og sá varla handa minna skil. Við sluppum  við þokuna en fengum smá súld.

Eftir ferðir sem þessar er auðveldara en áður að átta sig á ferðalýsingum í Njálu og tengslum milli bæja á þeim tíma, þegar ferðast var ríðandi eða fótgangandi og engar girðingar  hindruðu menn í að fara stystu leið.

Ég heyrði í fréttum, að Ólafur Ásgeirsson, þjóðskjalavörður, andmælti þeim orðum Ragnars Aðalsteinssonar hrl., að Ólafur væri beittur þrýstingi til að hindra aðgang Ragnars að skjölum í þjóðskjalasafni. Hvaðan skyldi Ragnar hafa heimildir fyrir yfirlýsingum sínum í þá veru?