4.8.2006 22:04

Föstudagur, 04. 08. 06.

Sérkennilegt er, að lesa og heyra skoðanir Ragnars Aðalsteinssonar hrl. á því, hvernig stjórnsýslu er háttað. Lögregla sinnir að hans mati öryggisgæslu við Kárahnjúka vegna „skipana að sunnan“ og þjóðskjalavörður er beittur „þrýstingi að ofan“ þegar hann svarar óskum Ragnars um aðgang að skjölum í Þjóðskjalasafninu á annan veg en Ragnar vill. Að þessar stöðugu samsæriskenningar hæstaréttarlögmannsins eigi erindi í fjölmiðla segir einnig nokkuð um, hve langt fréttamenn eru leiddir í gúrkutíðinni og það jafnvel sömu daga og endalaust er unnt að segja vega-,  flug- og veðurfréttir vegna verslunarmannahelgarinnar.

Að gefnu tilefni árétta ég þá skoðun mína, að eðlilegt sé að birta öll opinber gögn um kalda stríðið hér á landi og úr erlendum skjalasöfnum, sem unnt er lögum samkvæmt og þeim reglum, sem gilda um birtingu slíkra gagna. Alþingi hefur nú ályktað, að nefnd sérfróðra manna skuli koma að ákvörðunum um slíka birtingu í opinberum, íslenskum skjalasöfnum. Um meðferð opinberra skjala og skyldu til að skila þeim til Þjóðskjalasafns gilda lög og ber ráðuneytum að sjálfsögðu að fara að þeim lögum. Að reyna að gera lögbundin skil á skjölum til Þjóðskjalasafns totryggileg byggist á annarlegum sjónarmiðum og samsærisáráttu.

Í byrjun áttunda áratugarins lét Þjóðviljinn hvað eftir annað að því liggja, að í bandarískum skjalasöfnum væri að finna leyndarskjöl, sem sönnuðu landráðakenningar blaðsins á tímum kalda stríðsins. Ég ritaði langar greinar um þessar samsæriskenningar Þjóðviljans í Morgunblaðið og byggði á skjölum, sem bandaríska utanríkisráðuneytið birti í samræmi við bandarísk lög og reglur um slíka birtingu. Eftir að þessar greinar birtust dró úr dylgjum og samsæriskenningum Þjóðviljans um þennan þátt utanríkismálanna.

Ég er sannfærður um, að birting íslenskra skjala frá tímum kalda stríðsins muni þagga niður í samæriskenningasmiðunum og þar með hreinsa andrúmsloftið í umræðum um þetta skeið í Íslandssögunni. Að láta eins og ég sé einhver andstæðingur þess, að opinber gögn frá þessum tíma séu birt og rædd, er með öllu úr lausu lofti gripið og í raun fráleitt. Ég ætti kannski að leita réttar míns fyrir dómstólunum til að fá þessum áburði hnekkt?