1.8.2006 21:34

Þriðjudagur, 01. 08. 06.

Undarlegt er, að Ólafur Ragnar Grímsson skuli kjósa að minnast 10 ára setu sinnar í embætti forseta Íslands með því að leitast við að réttlæta ákvörðun sína um að grípa til 26. gr. stjórnarskrárinnar og fram fyrir hendur alþingis vegna fjölmiðlalaganna sumarið 2004 - og ekki aðeins leitast við að réttlæta þetta umdeilda embættisverk siit heldur ganga lengra og telja sig hafa skapað sér meira vald en stjórnarskráin heimilar, vegna ákvarðana ríkisstjórnar og alþingis í framhaldi af hinni umdeildu forsetasynjun. Þegar fjölmiðlafrumvarpið var rætt á alþingi, vissu þingmenn ekkert um afstöðu Ólafs Ragnars til málsins og hann færði ekki efnisleg sjónarmið fram 2. júni 2004, þegar hann tilkynnti synjun sína í beinni útsendingu en nú mætti halda, að hann hefði tekið efnislega afstöðu til málsins á þeim tíma.

Af viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, við orðum Ólafs Ragnars mætti helst ætla, að hann væri að kasta bjarghringi til hennar með þessum orðum sínum. Eins og öllum er ljóst rekur Samfylkinguna með Ingibjörgu Sólrúnu í brúnni nú fyrir veðri og vindum og enginn veit á hvaða skeri hún að lokum lendir - heldur er sú taug veik, ef hún ætlar að nýta afstöðu Ólafs Ragnars í fjölmiðlamálinu til að forða sér frá strandi.

Dorrit Moussaieff, forsetafrú, fékk í gær bréf undirritað af mér og embættismanni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um, að hún væri þann dag orðin íslenskur ríkisborgari. Í Fréttablaðinu í dag segir hún meðal annars af þessu tilefni: „Það á ekki að vera auðvelt að verða íslenskur ríkisborgari. Það er mjög nauðsynlegt að við veljum vandlega hver fær að verða Íslendingur. Við verðum að sjá til þess að fólkið sem hingað kemur gefi eitthvað til baka en lifi ekki af fólkinu sem hér er fyrir.“